Ný tengsl milli lífsnauðsynlegra AAA+ ATPasa-flóka - verkefnislok

4.6.2013

Próteinin Rvb1 og Rvb2 eru mjög vel varðveitt og lífsnauðsynleg öllum heilkjarna lífverum. Þau tengjast ýmsum ferlum í frumunni svo sem litnisbreytingum, stjórn genatjáningar, DNA-viðgerðum, þroskun snoRNA sameinda, samsetningu telómerasa og litnisumbreytiflóka (chromatin remodeling complexes).  Annar mikilvægur fjölpróteinaflóki í frumum heilkjörnunga er próteosómið sem gegnir mikilvægu hlutverki í próteinniðurbroti.  Í fyrra verkefni sýndum við fram á að vissar einingar úr svokölluðu "loki" próteosómsins (Rpt-próteinin) bindast Rvb1 og Rvb2.  Eitt af markmiðum verkefnisins var að finna hlutverk þessarar tengingar próteinanna.  Ákveðin vísbending var að Rpt-einingarnar hafa verið bendlaðar við stjórn genatjáningar og þar hafa Rvb-próteinin einnig hlutverk. 

 small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Ný tengsl milli lífsnauðsynlegra AAA+ ATPasa-flóka
Verkefnisstjóri: Zophonías O. Jónsson, Líffræðistofnun Háskólans
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2011
Fjárhæð styrks: 12,92 millj kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100226

 

Meginmarkmiðið að útskýra hlutverk prótein-samspilsins náðist ekki en aðrir hlutar verkefnisins skiluðu árangri. Þróuð var nýstárleg aðferð við samanburð massagreiningargagna milli fjarskyldra lífvera, byggð á svokölluðum Pfam-hneppum.  Stofnar af ávaxtaflugum (Drosophils) voru settir upp til að kanna hlutverk Rvb1, Rvb2 og Rpt-próteina í þroskun og hugsanlegt samspil þeirra.  Jafnframt fengust niðurstöður sem varpa ljósi á hlutverk Rvb-próteinanna í umritunarstjórn GAL-genanna í gersvepp. Í ljós kom að Rvb2 er nauðsynlegt til að staðfæra (recruit) miðlara (mediator complex) að GAL-stýrlum. Rvb2 hefur einnig áhrif á bindingu SAGA-flókans við stýrla. Minnkuð binding miðlarans eftir brottnám Rvb2 minnkar bindingu TBP, TFIIH og RNA-pólýmerasa II og dregur verulega úr tjáningu GAL-genanna.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica