Virkni erfðabreytileika blöðruhálskirtilskrabbameins sem nýlega voru staðsettir á litningi 8q24 - verkefnislok í Rannsóknasjóði

25.6.2013

Markmið rannsóknarinnar var að kanna virkni erfðbreytileika á litningi 8q24 sem hafa áhrif til myndunar á blöðruhálskirtilskrabbameini. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að umræddir erfðabreytileikar hafi lítil áhrif á tjáningu 8q24 gena í krabbameinsmyndun og því mögulegt að áhrifa þeirra gæti mun fyrr, jafnvel í þroskun.

 

small_Rannsoknasjodur

 

Heiti verkefnis: Virkni erfðabreytileika blöðruhálskirtilskrabbameins sem nýlega voru staðsettir á litningi 8q24
Verkefnisstjóri: Jón Þór Bergþórsson
Tegund styrks: Rannsóknarstöðustyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 13,82 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100444

  

Sérstök áhersla var því lögð á að hanna frumuræktunarlíkan sem endurspeglar þroskun blöðruhálskirtils manna. Eiginleikar frumulína sem einangraðar voru úr blöðruhálskirtli voru kannaðir í þrívíðum ræktunarkerfum með grunnhimnuefni og æðaþeli sem stoðvef. Frumulínan PZ-HPV-7, sem einangruð er úr þeim hluta blöðruhálskirtilsins sem krabbameinsmyndun á sér gjarnan stað myndar greinóttar þyrpingar í slíku kerfi og má segja að vöxturinn endurspegli formgerð kirtilsins. Frumulínan var notuð til að skoða áhrif yfirtjáningar valinna gena m.a. POU5F1P1 sem er staðsett hjá erfðaþáttum blöðruhálskirtilskrabbameins á 8q24 svæðinu og telst til svokallaðra unnina gervigena (processed pseudogene). Tjáning á POU5F1P1 RNA leiddi til breyttrar hegðunar PZ-HPV-7 í bæði tvívíðu og þrívíðu ræktunarkerfi en að öllu jöfnu eru gervigen ekki talin hafa líffræðilega virkni. Í framhaldsrannsókn er þó nauðsynlegt að staðfesta þessi áhrif m.a. í frumum af öðrum uppruna. Auk þess að leiða af sér hentugt frumuræktunarlíkan til að skoða þroskunarferli í myndun blöðruhálskirtils mannsins hafa niðurstöður rannsóknarinnar því leitt til nýrra hugmynda um virkni erfðabreytileika á 8q24 litningasvæðinu.

 

Hluti rannsóknarinnar birtist í tímaritinu Prostate í júní 2013:

Bergthorsson JT, Magnusson MK, Gudjonsson T. Endothelial-rich microenvironment supports growth and branching morphogenesis of prostate epithelial cells. Prostate. Prostate. 2013 Jun;73(8):884-96.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica