Umritun DNA með RNA-pólímerasa II og DNA-skemmdir - verkefnislok

25.3.2014

Í verkefninu var lífefnafræðileg virkni Rad26-próteinsins sem er lykilþáttur í RNA-pólímerasa II umritunarháðri skerðibútaviðgerð rannsökuð. Um var að ræða verkefnisstyrk Rannsóknarsjóðs, verkefnisstjóri var Stefán Sigurðsson.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Umritun DNA með RNA-pólímerasa II og DNA-skemmdir
Verkefnisstjóri:  Stefán Sigurðsson, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Styrkfjárhæð: 19,278 millj. kr. alls

Helstu markmið verkefnisins voru að rannsaka hlutverk Rad26 í umritunarháðri DNA-skerðibútaviðgerð. Um er að ræða DNA-viðgerðarferil sem er vel varðveittur í langflestum lífverum en mjög lítil þekking er á upphafsskrefum ferilsins. Til þess að reyna að varpa ljósi á þessi fyrstu skref var lífefnafræðileg virkni Rad26 rannsökuð. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að Rad26 noti orku sem myndast við ATP-vatnsrof til þess að ferðast eftir DNA-sameindinni og tengist þannig RNA-polýmerasa II (RNAPII) sem stöðvast hafa á DNA-skemmd. Þannig greinir Rad26 DNA-skemmdina óbeint í gegnum RNAPII og dregur líklega til sín prótein sem taka beinan þátt í viðgerðarferlinu.

Verkefnið hefur verið kynnt í fyrirlestrum og á veggspjöldum á innlendum og erlendum ráðstefnum. Einnig verður verkefnið uppistaðan í doktorsritgerð Antons Ameneiros-Álvarez við Háskóla Íslands.

Unnið er að ritun greina um niðurstöður verkefnisins. Vinnutitlar þessara greina eru:

Anton Ameneiro-Álvarez, Jesper Q. Svejstrup and Stefán Sigurðsson. 2014. Biochemical characterization of Rad26 and its function in transcription-coupled nucleotide excision repair (TC-NER). In preparation.

Michael Taschner, Anton Ameneiro-Álvarez, Esben Lorentzen and Stefán Sigurðsson. 2014. Crystal structure of the transcription coupled repair factor Rad26. In preparation.

 

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica