Sólarorkudrifin efnahvörf með lágorkurafeindum á yfirborðum - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

4.2.2015

Í verkefninu var miðað að því að kanna nýja leið til að umbreyta orku sólarljóssins í efnaorku.

Verkefnið Sólarorkudrifin efnahvörf með lágorkurafeindum á yfirborðum sem styrkt var af Rannsóknasjóð árin 2011, 2012 og 2013, miðaði að því að kanna nýja leið til að umbreyta orku sólarljóssins í efnaorku. Notaðar voru rafeindir með lága orku (0-1.0eV) sem hafa þann eiginleika að geta klofið eða hvatað rof efnatengja og mynda þannig úr smáum sameindum stærri og orkuríkari sameindir.

Heiti verkefnis: Sólarorkudrifin efnahvörf með lágorkurafeindum á yfirborðum
Verkefnisstjóri: Oddur Ingólfsson, Raunvísindastofnun Háskólans
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2012
Fjárhæð styrks: 19,97 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100009

Verkefnið var þrískipt og snéri fyrsti hlutinn að því að setja upp míkróhvarfkerfi þar sem hægt væri að prufa virkni mismunandi hvatakerfa við t.d. afoxun kolmónoxíðs til að mynda metan eða metanól, en einnig við önnur efnahvörf. Annar hluti verkefnisins snéri að því að rannsaka tengjarof eftir víxlverkan mismunandi efna við rafeindir með hreyfiorku á bilinu 0-10 eV. Þriðji hluti verkefnisins fjallaði um að rannsaka ræktun hvatandi húða með hvarfaspætun. Þetta verkefni hefur lagt grunnin að áframhaldandi rannsóknum á þessu sviði innan Háskóla Íslands og vonir standa til að niðurstöður verkefnisins geti nýst til að hanna tilraunaútgáfu af hvarfklefa til að nota sólarljós til að byggja upp efnasambönd og þannig breyta orku sólarinnar í efnaorku sem hægt er að nýta t.d. í samgöngum.

Við verkefnið var notuð nútímaaðferðafræði og tækni eðlisfræðinnar og efnafræðinnar til að fá skýrari mynd af því hvernig lágorkurafeindir valda tengjarofum og til að leita leiða til að nota það ferli til að umbreyta orku sólarljóssins í efnaorku. Til langtíma litið vonumst við til þess að þetta verkefni leggi af mörkum í leit okkar að leiðum til að nýta orku sólarljóssins á skilvirkari máta en nú er gert. Árangur og reynsla við framkvæmd þessa verkefnis nýtist einnig í nýju öndvegisverkefni sem hefst í ársbyrjun 2015.

Úr verkefninu hafa þegar verið birtar yfir 20 vísindagreinar í virtum alþjóðlegum tímaritum og niðurstöður hafa verið kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum. Fjórir doktorsnemendur sem komu að þessu verkefni hafa þegar útskrifast með doktorsgráðu. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica