Samrunagen í brjóstaæxlum með mögnun á litningasvæði 8p12-p11 - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á heimsvísu. Markmið verkefnisins var að skilgreina gen, eða breytingar í genum, staðfesta hvernig þau hafa áhrif á framvindu æxlisþróunar í frumulínum og meinsins í brjóstakrabbameinssjúklingum. Tilgangurinn er að afla þekkingar sem hægt yrði að nýta til að bæta líf sjúklinga eftir greiningu, t.d. með annars konar meðferðarmöguleikum, nákvæmari spám um horfur og hugsanlega með því að nota genin sem lyfjamörk.
Breytingar sem verða í erfðaefninu í tengslum við myndun samrunagena getur haft áhrif á tjáningu genanna. Verkefnið fólst í að nýta birtar rannsóknaniðurstöður um samrunagen til að skilgreina erfðavísa sem mögulega áhrifavalda í þróun krabbameins og staðfesta þær niðurstöður með frekari rannsóknum. Tveir erfðavísar sem fundust með þessari aðferð voru rannsakaðir og höfðu báðir þeirra áhrif á horfur brjóstakrabbameinssjúklinga. Einn þeirra tekur þátt í sjálfsáti og formgerð vefja og annar skráir RNA smásameind (microRNA) sem hefur áhrif á PI3K/Akt boðleiðina, þá sem oftast er breytt í æxlum. Áhrifin af niðurstöðum þessara rannsókna eru fyrst og fremst aukin þekking á því hvernig æxlisþróun fer fram og á þeim grunni er hægt að smíða nýjar tilgátur. Áframhaldandi rannsóknir á þessum tveim erfðavísum gætu mögulega gagnast í leit að fleiri meðferðarmöguleikum.
Verkefnið var rannsóknarverkefni doktorsnema, sem útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 2021. Niðurstöður verkefnisins voru efni í tvær vísindagreinar, sú fyrri var birt í ritrýndu vísindatímariti árið 2019 og sú síðari er til umfjöllunar hjá vísindatímariti og verður væntanlega birt í lok árs 2021.
Heiti verkefnis:
Samrunagen í brjóstaæxlum með mögnun á litningasvæði
8p12-p11/ Gene fusions in 8p12-p11 amplified
breast tumours
Verkefnisstjóri: Inga Reynisdóttir, Landspítala – háskólasjúkrahúsi
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2015-2017
Fjárhæð styrks: 27,917 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:
152530