Jarðhiti og krabbamein - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

23.6.2017

Rannsóknasjóður hefur um þriggja ára skeið styrkt rannsóknir á doktorsverkefninu Jarðhiti og krabbamein, sem nú er lokið. Rannsóknarspurningin vaknar því erlendar rannsóknir hafa sýnt að búseta á jarðhita- og eldfjallasvæðum tengist hærri tíðni ákveðinna tegunda krabbameina. Markmiðið var að rannsaka tengsl búsetu á jarðhitasvæðum og tíðni krabbameina á Íslandi.

Í fjórum lýðgrunduðum hóprannsóknum var einstaklingum úr manntali 1981 fylgt eftir til loka árs 2013. Eftirfylgnin fór fram í Krabbameinsskrá og Dánarmeinaskrá. Viðbótarupplýsingar voru fengnar úr gagnagrunnum um reykingavenjur og barneignir. Útsettur hópur og samanburðarhópar voru skilgreindir samkvæmt sveitarfélagsnúmerum, eftir aldri hitaveitna og aldri berggrunns. Notuð var lifunargreining og áhættuhlutfall reiknað með 95% öryggismörkum með fjölþáttagreiningu.

Í rannsóknunum, með nærri 33 ára eftirfylgni og um 1000 krabbameinstilfellum á jarðhitasvæðum, fannst marktækt hærri tíðni vegna allra krabbameina saman á jarðhitasvæðum heldur en á samanburðarsvæðum; krabbameinum í briskirtli, brjóstum, blöðruhálskirtli, nýrum, eitil- og blóðmyndandi vefjum, eitilæxlum öðrum en Hodgkins meinum og grunnfrumukrabbameinum í húð. Í dánarmeinarannsókn var aukin áhætta á að deyja vegna krabbameina í brjóstum, blöðruhálskirtli, nýrum og eitilæxlum öðrum en Hodgkins meinum en vegna sjálfsvíga og inflúensu. Krabbameinstíðnin tengdist lengd búsetu og einnig var krabbameinstíðnin hærri því meiri sem jarðhitavirkin var og hitaveiturnar voru eldri. Auk þessa var krabbameinstíðnin hærri þegar tekið var tillit til 5 ára hugsanlegs framleiðslutíma krabbameinanna.

Ekki er vitað hver er orsökin fyrir hárri tíðni krabbameina á jarðhitasvæðunum á grunni þessara vistfræðilegu rannsókna. Frekari rannsókna er þörf á efna- og eðlisfræðilegum þáttum jarðhitavatns og umhverfisþátta á jarðhitasvæðum, til að athuga hvort finnast þekktir og/eða óþekktir krabbameinsvaldar sem gætu skýrt þessa háu krabbameinstíðni.

Aðalbjörg Kristbjörnsdóttir varði doktorsritgerð sína í desember 2016, titill: Geothermal areas and cancer (Jarðhiti og krabbamein), við Læknadeild, Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Leiðbeinandi hennar var Vilhjálmur Rafnsson, prófessor við læknadeild, en í doktorsnefnd voru Laufey Tryggvadóttir, Thor Aspelund, Unnur Valdimarsdóttir og Þórhallur Ingi Halldórsson.

Heiti verkefnis: Jarðhiti og krabbamein
Verkefnisstjóri: Vilhjálmur Rafnsson, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 19,772 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  141746

Þetta vefsvæði byggir á Eplica