Samband fagurfræðilegrar hönnunar og árangurs í nýsköpun - verkefnislok

6.1.2014

Rannsóknir á fagurfræðilegri hönnun í nýsköpun hafa nálgast fyrirbærið úr ýmsum áttum án þess að tryggja samræmi milli ólíkra sjónarhorna. Í verkefninu „Samband fagurfræðilegrar hönnunar og árangurs í nýsköpun“ var leitast við að sameina þessi ólíku sjónarhorn m.t.t. áhrifa fagurfræðilegrar hönnunar á árangur í nýsköpun.
small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Samband fagurfræðilegrar hönnunar og árangurs í nýsköpun
Verkefnisstjóri:  Rögnvaldur J. Sæmundsson, Rannsóknamiðstöð Háskólans í Reykjavík í nýsköpun og frumkvöðlafræði
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2013
Styrkfjárhæð: 19,197 millj. kr. alls

Grunnurinn að verkefninu var langtímarannsókn meðal ungra íslenskra tæknifyrirtækja. Áhersla fyrirtækjanna á fagurfræðilega hönnun, auðlindir sem þau hafa á að skipa til að stunda fagurfræðilega hönnun ásamt mati á gæðum hennar voru öll mæld sérstaklega og samanburður gerður á framlagi þessara þátta til árangurs í nýsköpun. Í ljós kom að áhersla fyrirtækja á fagurfræðilega hönnun hefur meiri áhrif á þennan árangur en metin gæði hönnunarinnar eða þær auðlindir sem liggja til grundvallar. Einnig kom í ljós að ný og ung íslensk tæknifyrirtæki hafa almennt ekki á að skipa hönnuðum þannig að fagurfræðileg hönnun í þessum fyrirtækjum er annað hvort aðkeypt eða unnin af fólki sem hefur ekki formlega menntun á sviði hönnunar.

Þar sem fylgst var með fyrirtækjum í lengri tíma var hægt að kanna hvernig fyrri árangur hefur áhrif á áherslu þeirra á fagurfræðilega hönnun. Meðal annars kom fram að þegar árangur uppfyllir ekki væntingar eru fyrirtækin líklegri til að leggja meiri áherslu á fagurfræðilega hönnun. Það gefur til kynna að fyrirtækin líti á fagurfræðilega hönnun sem mögulega leið til að bæta árangur sinn.

Gerð var grein fyrir niðurstöðum verkefnisins í fjórum greinum sem hafa nú þegar verið birtar eða fengist samþykktar til birtingar í ritrýndum fræðitímaritum. Einnig hafa niðurstöður verið kynntar á fræðiráðstefnum í Evrópu og Bandaríkjunum.
Verkefnið byggði upprunalega á samstarfi við Tækniháskólann í Delft í Hollandi, en með tímanum hafa bæst við tveir háskólar í Bandaríkjunum, Northeastern University og Virgina Commonwealth University.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica