Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti - verkefnislok

8.1.2014

Rannsóknarverkefnið Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti var styrkt af Rannsóknasjóði á árunum 2010 til 2012. Markmið þess var að kanna íslensk handrit síðari alda frá sjónarhorni nýrra kenninga innan textafræði og bóksögu.

 

 small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Menningarlegt og félagslegt hlutverk íslenskra kvæða- og sálmahandrita eftir siðskipti
Verkefnisstjóri:  Margrét Eggertsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Styrkfjárhæð: 19,65 millj. kr. alls

 

Verkefnið var þrískipt að því leyti að það beindist að þremur svæðum á landinu og á hverju svæði var ákveðið viðfangsefni tekið fyrir. Fyrsta svæðið var Skálholt eða suðvesturhorn landsins og þar voru sálmahandrit með nótum og sambandið milli þeirra rannsakað. Annað svæðið var Hólar í Hjaltadal, þar sem eina prentsmiðja landsins var lengi. Kannað var samspil þess kveðskapar sem varðveittur er í handritum og þess sem prentaður var og hvaða áhrif dómkirkjuskólinn og kirkjunnar menn höfðu á ritun og prentun. Þriðja svæðið var Vestfirðir en þar fór fram mikil bókmenntastarfsemi, einkum tengd hinum vel ættaða og efnaða bónda, Magnúsi Jónssyni í Vigur og fjölskyldu hans. Tekin voru til athugunar kveðskaparhandrit sem rituð voru undir handarjaðri hans og sýnt fram á hvernig þau endurspegla félagslega og menningarlega stöðu fjölskyldunnar. Þátttakendur í verkefninu voru sjö talsins. Karl Óskar Ólafsson, Johnny Lindholm og Katelin Parsons sömdu staðlaðar handritalýsingar og notuðu Oxygen-forritið til rafrænnar skráningar þannig að hægt væri að setja lýsingarnar inn á vefinn www.handrit.is. Aðrir þátttakendur voru Árni Heimir Ingólfsson, Svanhildur Óskarsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir og Margrét Eggertsdóttir sem var verkefnisstjóri. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar í greinasafni sem hefur að geyma greinar á ensku eftir þátttakendur í verkefninu og samstarfsfólk þeirra í skyldum verkefnum. Það kemur væntanlega út á næsta ári undir titlinum: Mirrors of Virtue. Manuscripts and printed books in Post-Reformation Iceland.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica