Sumarexem í hestum. Framleiðsla á ofnæmisvökum í byggi og þróun á ónæmismeðferð - verkefnislok

21.2.2014

Sumarexem er húðofnæmi í hestum orsakað af biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum. Ofnæmið er yfirdrifið ónæmissvar gegn próteinum (ofnæmisvökum) sem flugurnar seyta þegar þær bíta. 

small_Rannsoknasjodur 

Heiti verkefnis: Sumarexem í hestum. Framleiðsla á ofnæmisvökum í byggi og þróun á ónæmismeðferð
Verkefnisstjóri: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð HÍ, Keldum
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 19,867 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  100408

Ofnæmisvakarnir sem valda exeminu hafa verið einangraðir og tjáðir. Markmið verkefnisins er að þróa ónæmismeðferð þ.e. forvörn og lækningu gegn sumarexemi, notaðar eru tvær nálganir.

1) Sprauta hesta í eitla með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði:
Sýnt var fram á að bólusetning í eitla og í húð á hestum með mjög lágum skammti af hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði vekur öflugt ónæmissvar. Með þrennskonar ónæmisglæðum sem voru prófaðir tókst að ræsa ákjósanlegt ónæmissvar, sem var ekki á braut ofnæmis. Sprautunaraðferð hefur verið ákveðin og fundnir heppilegir ónæmisglæðar. Tveir þeirra verða prófaðir nánar í fleiri hestum. Í kjölfarið verður vonandi hægt að gera áskorunartilraun þar sem bólusettir hestar verða fluttir út á flugusvæði með óbólusettum samanburðarhópi.

2) Meðhöndla hesta um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka.
Einn ofnæmisvaki hefur verið tjáður í byggi og tveir í viðbót eru að verða tilbúnir. Fyrir byggmeðferðina, höfum við hannað sérstök beislismél. Við höfum sýnt fram á að það er hægt að mynda sérvirkt mótefnasvar í hestum með meðhöndlun um munn með möluðu byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Ef tekst að afnæma hesta með ofnæmi með byggblöndunni þá höfum við þróað einstaka aðferð fyrir ónæmismeðferð.  

Þetta vefsvæði byggir á Eplica