Sumarexem í hestum. Framleiðsla á ofnæmisvökum í byggi og þróun á ónæmismeðferð - verkefnislok
Sumarexem er húðofnæmi í hestum orsakað af biti smámýs sem lifir ekki á Íslandi. Tíðni sjúkdómsins er mjög há í útfluttum hestum. Ofnæmið er yfirdrifið ónæmissvar gegn próteinum (ofnæmisvökum) sem flugurnar seyta þegar þær bíta.
Heiti verkefnis: Sumarexem í hestum. Framleiðsla á ofnæmisvökum í byggi og þróun á ónæmismeðferð
Verkefnisstjóri: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð HÍ, Keldum
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 19,867 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100408
Ofnæmisvakarnir sem valda exeminu hafa verið einangraðir og tjáðir. Markmið verkefnisins er að þróa ónæmismeðferð þ.e. forvörn og lækningu gegn sumarexemi, notaðar eru tvær nálganir.
1) Sprauta hesta í eitla með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði:
Sýnt var fram á að bólusetning í eitla og í húð á hestum með mjög lágum skammti af hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði vekur öflugt ónæmissvar. Með þrennskonar ónæmisglæðum sem voru prófaðir tókst að ræsa ákjósanlegt ónæmissvar, sem var ekki á braut ofnæmis. Sprautunaraðferð hefur verið ákveðin og fundnir heppilegir ónæmisglæðar. Tveir þeirra verða prófaðir nánar í fleiri hestum. Í kjölfarið verður vonandi hægt að gera áskorunartilraun þar sem bólusettir hestar verða fluttir út á flugusvæði með óbólusettum samanburðarhópi.
2) Meðhöndla hesta um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka.
Einn ofnæmisvaki hefur verið tjáður í byggi og tveir í viðbót eru að verða tilbúnir. Fyrir byggmeðferðina, höfum við hannað sérstök beislismél. Við höfum sýnt fram á að það er hægt að mynda sérvirkt mótefnasvar í hestum með meðhöndlun um munn með möluðu byggi sem tjáir ofnæmisvaka. Ef tekst að afnæma hesta með ofnæmi með byggblöndunni þá höfum við þróað einstaka aðferð fyrir ónæmismeðferð.