DNA - rannsókn á íslensku bókfelli - verkefnislok

21.2.2014

Í þessari rannsókn var fyrsta markmiðið að beita erfðafræðilegum aðferðum til að kanna uppruna bókfells sem notað var í handritagerð Íslendinga á miðöldum, þ.e. hvaða dýrategundir voru notaðar í bókfell og leita svara við þeirri spurningu hvort og þá að hve miklu leyti uppruni bókfells geti skýrt hvernig Íslendingar urðu svo umsvifamiklir í handritagerð og bókaverslun á miðöldum.

Næsta markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort hægt væri að kortleggja skyldleika innan tegundar með það fyrir augum að geta leitt líkur að því hvar einstök handrit voru skrifuð.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: DNA - rannsókn á íslensku bókfelli
Verkefnisstjóri:  Vésteinn Ólason,  Stofnun Árna Magnússonar

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2008-2009
Fjárhæð styrks: 9,251 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  080601

Niðurstöður okkar eru úr um 50 tvinnum úr 10 handritum. Mest voru þetta ótrúlega heillegar kálfaraðir, en aðrar tegundir sem við höfum greint eru svín, kindur, selir, kettir, menn - og mús. Oft hefur sama skinnið greinst sem tvær eða jafnvel fleiri tegundir (sjá umfjöllun um mengunarvandann). Árangurinn er því sá að okkur hefur tekist að greina DNA úr hárum skinnhandrita, en ávinningurinn er enn sem komið er takmarkaður þar sem ekki er hægt að fullyrða að einstakar niðurstöður séu réttar.

Með nýrri raðgreiningartækni er hægt að fá mun meiri upplýsingar, en tæknin er hinsvegar of dýr í dag fyrir okkur. En við eigum mörg hundruð vel geymd sýni og við höfum því einstakt tækifæri í náinni framtíð til að auka þekkingu manna á handritum með DNA - rannsóknum - án þess að skemma handritin.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica