Líkamlegt atgervi, félgslegir þættir og andleg líðan unglinga og ungmenna - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.1.2015

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hlutfall þeirra einstaklinga sem skilgreindir eru of þungir hefur aukist um 25% hjá báðum árgöngum. Hreyfing eða virkni þessara 17 ára og 23 ára einstaklinga hefur minnkað um 50% á átta árum og það á bæði við um hreyfingu þeirra um helgar og á virkum dögum. 

Heiti verkefnis: Líkamlegt atgervi, félgslegir þættir og andleg líðan unglinga og ungmenna
Verkefnisstjóri: Erlingur Jóhannsson, Háskóla Íslands

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 16,96 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  110639

Þegar þrek þessara 17 ára og 23 ára einstaklinga var skoðað kom í ljós að þeir voru með 20% verra þrek núna en fyrir átta árum. Þrek drengja versnaði meira en stúlkna. Í rannsókninni var þróun andlegra þátta rannsökuð og í ljós kom að við 15 ára aldur líður drengjum marktækt betur en stúlkum andlega en við 23 ára aldur virðast stúlkur hafa að einhverju leiti náð drengjum því kynjamunur minnkar. Sjálfsálit stúlkna jókst meira en drengja frá 15 til 23 ára aldurs, en lífsánægja minnkaði á sama tíma, óháð kyni. Í rannsókninni var algengi stoðkerfisverkja skoðað og kom í ljós að þeir eru nokkuð algengir í ungu fólki. Hlutfallslega var algengast að það væri með verki í neðra baki, næstalgengast í herðum og öxlum, svo í hnjám og í efra baki. Marktækt fleiri konur en karlar voru með verki í herðum og öxlum, úlnliðum, efra baki, neðra baki og mjöðmum. Í verkefninu voru skoðuð tengsl þreks og líkamsfitu við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og hvort mismunandi framsetning á þreki hefði áhrif á þessi tengsl. Þrek tengdist heildarkólesteróli, þríglýseríðum, insúlíni og HOMA marktækt eftir leiðréttingu fyrir aldri og kyni. Algengi íþróttameiðsla var metið og brottfall vegna þeirra. Um 96% þátttakenda höfðu einhvern tímann stundað íþróttir með íþróttafélagi en 63% voru hætt slíkri iðkun, fleiri stúlkur en drengir. Um 8,5% hættu vegna íþróttameiðsla og af þeim sem æfðu með íþróttafélagi síðastliðna 12 mánuði voru 51% sem þurftu læknisfræðilega aðstoð einu sinni eða oftar. Niðurstöður rannsóknarverkefnisins gefa klárlega til kynna að heilsufar íslenskra ungmenna bæði líkamlegt sem og andlegt er að breytast frá því sem var fyrir 8 árum.

Þær heilsufræðilegar upplýsingar sem aflað var í þessari langtímarannsókn um íslenska unglinga og ungmenni munu gefa mjög dýrmæta vitneskju sem nýta má til að ákveða til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða heilbrigðis- og menntamálayfirvöld þurfa að grípa á komandi árum og áratugum. Í ljósi þessarar þekkingar þarf augljóslega að stórefla heilbrigðisfræðslu meðal ungs fólks með því að auka meðvitund, þekkingu og skilning þess á eigin heilsu og þeim umhverfisþáttum sem hafa áhrif á heilbrigði og velferð þess. Draga má þá ályktun að vísindalegt- sem og hagnýtt gildi rannsóknarinnar sé ótvírætt og ávinningurinn umtalsverður.

Þrír meistaranemar hafa unnið við verkefnið og hafa allir varið sínar meistaraprófsritgerðir. Þrír doktorsnemar vinna að sínum doktorsverkefnum og eru vísindagreinar þeirra ýmist í birtingarferli eða í handritsformi. Reikna má með að allt að 10 vísindagreinar verði birtar frá þessu rannsóknarverkefni á næstu árum.  










Þetta vefsvæði byggir á Eplica