Innviðir eldfjalla - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

6.3.2015

Í öndvegisverkefninu Innviðir eldfjalla var unnið að ákvörðun á innri uppbyggingu eldfjalla, mati á kvikuhreyfingum og tengslum þeirra við eldvirkni, og að betrumbæta eldgosaviðvarnir og vöktun eldvirkni. Samtúlkun mismunandi gagna var höfð að leiðarljósi.

Heiti verkefnis: Innviðir eldfjalla
Verkefnisstjóri: Freysteinn Sigmundsson, Norræna eldfjallasetrinu / Raunvísindastofnun
Tegund styrks: Öndvegisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 74,703 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís. 11024201

Umtalsverður árangur náðist, m.a. í samtúlkun jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfinga sem var svo beitt við túlkun á umbrotunum í Bárðarbungu sem hófust í ágúst 2014, og samtúlkun jarðskorpuhreyfinga og eldgosavirkni sem beitt var til að auka skilning á Grímsvatnagosi 2014.  Unnið var að ýmsum rannsóknum í jarðefnafræði og bergfræði sem má bera saman við jarðeðlisfræðilegar niðurstöður, m.a. kvikublöndun í tengslum við eldgos í Eyjafjallajökli, og dýpi á bergkviku sem tók þátt í atburðunum þar.  Verkefnið um Innviði eldfjalla lagði grunn að styrkumsókn í 7. Rammaáætlun Evrópusambandsins um verkefnið FUTUREVOLC (A European volcanological supersite in Iceland: a monitoring system and network for the future). Verkefnið fékk um 6 milljón evra styrk frá Evrópusambandinu, þar af koma um 2,3 milljónir evra til íslenskra stofnana. Innviðir eldfjalla leiddu til fjölmargra tímaritsgreina í virtum alþjóðlegum tímaritum, m.a. í Nature Geoscience og grein 2015 í Nature um umbrotin í Bárðarbungu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica