Rof á mRNA með RNA pólímerasa II í lengingarferli umritunar - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.3.2017

Í verkefninu var lengingarferill RNA pólímerasa II (RNAPII) skoðaður með sérstaka áherslu á hvernig RNAPII getur rofið nýmyndað mRNA og hvernig lengingarþáttur umritunar TFIIS/TCEA1 getur hjálpað til við það. Þetta rof á sér helst stað þegar RNAPII hefur stöðvast í lengingarferlinu t.d. vegna DNA skemmda. 

Heiti verkefnis: Rof á mRNA með RNA pólímerasa II í lengingarferli umritunar
Verkefnisstjóri: Stefán Sigurðsson, Háskóla Íslands

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 19,535 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  130028

Stjórn genatjáningar er mjög mikilvægur þáttur í þroskun og allri vefjasérhæfingu. Umritun erfðaefnisins hefst á því að próteinflóki sem inniheldur RNAPII binst við stýrilsvæði gena og fer að afrita DNA sameindina í mRNA. Þessi stjórnun við upphaf umritunar er mjög mikilvæg en á síðustu árum hefur komið í ljós að líka er hægt að hafa áhrif á genatjáningu meðan á lengingarferlinu stendur, þegar verið er að mynda mRNA sameindina. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að RNAPII stöðvast mjög oft í lengingarferlinu og við þær aðstæður þarf ensímið oft hjálp til að komast aftur af stað. TFIIS/TCEA1 er umritunarþáttur sem hjálpar til við slíka endurræsingu á RNAPII.

Markmið rannsóknanna er að auka skilning okkar á því hvað gerist þegar RNAPII stöðvast í lengingarferli umritunar ásamt því að rannsaka hvernig RNAPII er endurræstur til þess að hægt sé að halda umritun áfram.

Verkefnið hefur verið kynnt í fyrirlestrum og á veggspjöldum á ráðstefnum. Einnig verður verkefnið uppistaðan í meistararitgerðum Lindu Hrannar Sighvatsdóttur og Sigrúnar Guðjónsdóttur við Háskóla Íslands.

Unnið er að ritun greinar um niðurstöður verkefnisins - Regulation of the transcription elongation factor TCEA1 by miR-340.

Linda H. Sighvatsdottir, Sigrun Gudjonsdottir & Stefan Sigurdsson. 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica