Sjónsbók - ævintýrið um rithöfundinn Sjón, súrrealisma, frásagnir og sýnir - verkefnislok

20.6.2014

Úlfhildur Dagsdóttir rithöfundur og bókmenntafræðingur hefur lokið við handrit að fræðiriti um skáldverk rithöfundarins Sjóns (Sigurjóns B. Sigurðssonar). Ritið er í fimm köflum og þar er höfundarverk Sjóns sett í samhengi við íslenska bókmenntasögu undanfarinna þriggja áratuga, auk tilvísana í erlend verk af ýmsu tagi.

Heiti verkefnis: Sjónsbók - ævintýrið um rithöfundinn Sjón, súrrealisma, frásagnir og sýnir
Verkefnisstjóri:  Úlfhildur Dagsdóttir
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Styrkfjárhæð: 3,825 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 120645

Skáldskapur Sjóns tilheyrir að nokkru leyti framúrstefnu og þrátt fyrir vaxandi viðurkenningu, meðal annars bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs (2005) og nú síðast Íslensku bókmenntaverðlaunin (2014), heldur hann áfram að vera umdeildur höfundur. Verk hans þykja óaðgengileg en þó er ljóst að í þeim er fjallað á knýjandi hátt um íslenskan veruleika. Því er mikilvægt að skoða verkin í bókmenntasögulegu samhengi, sem dregur fram sérkenni þeirra og kortleggur jafnframt íslenskt bókmenntalandslag síðustu tveggja áratuga. Verkið mun því einnig gefa innsýn í og styrkja þekkingu á íslenskri bókmenntasögu samtímans.

Bókin fjallar um skáldverk Sjóns, með áherslu á ljóð og skáldsögur, en einnig verður komið inn á önnur verk hans, leikrit, sönglagatexta, samstarf við tónlistarkonuna Björk og fleira.

Megináherslan verður þó lögð á bókmenntafræðilega greiningu á verkum Sjóns. Þar verður fjallað um súrrealisma, módernisma og póstmódernisma. Könnuð verður notkun höfundar á textatengslum, en einnig verða skáldsögurnar skoðaðar í ljósi sjálfssagna (metafiction) og kenninga um höfundarhugtakið. Sérstök áhersla verður svo lögð á að rannsaka frásagnarfræði Sjóns, bæði með tilliti til vinnu hans með uppbrot frásagnarinnar og útfrá kenningum um sögulegan skáldskap.

Bókin er í fimm hlutum:

  1. Úttekt á íslenskri bókmenntasögu allt frá útgáfu fyrstu skáldsögu Sjóns, Stálnótt (1987).
  2. Umfjöllun og greining á ljóðabókum Sjóns, frá Sýnum (1978) til söngs steinasafnarans (2007).
  3. Umfjöllun og greining á fyrstu skáldsögum Sjóns, Stálnótt og Engill, pípuhattur og jarðarber (1989).
  4. Umfjöllun og greining á skáldsögunum Augu þín sáu mig (1994) og Með titrandi tár (2001).
  5. Umfjöllun um nýjustu verk Sjóns, sögulegu skáldverkin Skuggabaldur (2003), Argóarflísina (2005) og Rökkurbýsnir (2008).

Einn hluti verksins, greinin „„Að vera með fullri undirmeðvitund”: Um Medúsuhópinn”, hefur birst í Tímariti Máls og menningar, 2/2013.

 Öllum fimm hlutum verksins hefur verið lokið og eru tilbúnir í handriti.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica