Þróun persónuleika, starfsáhuga og lífsgilda hjá íslenskum ungmennum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.4.2015

Árið 2012 var rannsókn á tengslum og þróun persónuleika, starfsáhuga og lífsmarkmiða hjá ungu fólki styrkt til tveggja ára af Rannsóknasjóði. 

Heiti verkefnis: Þróun persónuleika, starfsáhuga og lífsgilda hjá íslenskum ungmennum
Verkefnisstjóri: Sif Einarsdóttir, Háskóla Íslands

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 4,316 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  120652

Frá því grunnskóla lýkur þurfa íslensk ungmenni að finna sér nám og störf sem hæfa eiginleikum þeirra, á sama tíma og sjálfsmynd þeirra er í mikilli mótun. Valmöguleikarnir eru margir í nútímasamfélagi og námsframboð fjölbreytt og því þarf hver og einn að máta persónulega eiginleika sína við þær leiðir sem samfélagið hefur að bjóða. Mikið brottfall nemenda og óvenju langur tími sem tekur nemendur að ljúka prófgráðum hérlendis gefur til kynna að þetta er ekki einfalt þroskaverkefni.

Rannsóknin hófst árið 2006 þegar mælitæki sem metur fimm persónuleikaþætti NEO-FF (t.d. úthverfu, samviskusemi), Bendill, íslensk áhugakönnun sem metur sex áhugasvið (t.d. handverkssvið, vísindasvið), ásamt lista sem metur sjö megin lífsmarkmið (t.d. félagsleg, efnahagsleg) voru lögð fyrir 485 10. bekkinga og 1368 framhaldsskólanema. Árið 2012 voru þessi matstæki lögð aftur fyrir sömu ungmennin og einnig árið 2008 í grunnskólaúrtaki. Fyrstu niðurstöður liggja nú fyrir. Niðurstöðurnar sýna að ákveðin áhugasvið og persónuleikaþættir breytast töluvert á þessum sex árum eins og búist var við. Í ljósi þeirra kenninga sem rannsóknin byggir á, aukast tengsl tiltekinna persónuleikaþátta, áhugasviða og lífsmarkmiða í gegnum ungdómsárin og leggja þannig grunn að skýrari starfstengdri sjálfsmynd. Þetta eru aðeins fyrstu niðurstöður þar sem enn er verið að vinna úr þessum margþættu langtímagögnum sem tókst að safna með góðri þátttöku ungs fólks, aðstoð náms- og starfsráðgjafa og velvilja þeirra skóla sem þátt tóku í rannsókninni í upphafi.

Rannsókn þessi á þróun persónuleika, starfsáhuga og lífsmarkmiðum á sér langan aðdraganda og fer fram í margslungnu fræðilegu og hagnýtu samhengi. Hún er gerð í beinu framhaldi af fyrri rannsóknum höfunda á starfsáhuga, og annarra sem vinna að rannsóknum á þróun starfsferils. Einnig er byggt á persónuleikafræðum, þroskasálfræði og rannsóknum á áhugahvöt. Nýmælið felst í því að starfsáhuga var bætt við fyrri líkön sem lýsa tengslum persónuleika og lífsmarkmiða sem prófuð hafa verið. Mælingarnar eru fleiri og ná einnig yfir lengra tímabil en áður hefur verið. Rannsóknin hefur því mikið fræðilegt gildi í alþjóðlegu samhengi. Niðurstöðurnar nýtast einnig starfandi náms- og starfsráðgjöfum hérlendis og erlendis og ungu fólki sem taka þarf lífsmótandi ákvarðanir um nám og starfsvettvang. Rannsóknin styður náms- og starfsráðgjafa og ungt fólk í að samþætta með kerfisbundnum og markvissum hætti þá fjölbreyttu sálfræðilegu eiginleika sem taldir eru hafa áhrif þróun starfsferils.     

Að verkefninu standa Sif Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og James Rounds, prófessor við Háskólann í Illinois, Champaign-Urbana. Með þeim hafa starfað doktorsnemarnir Chelsea Song, Jo-Tzu Sun og núverandi eða fyrrverandi MA-nemar í náms og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, Katrín Ósk Eyjólfsdóttir, Ína Björg Árnadóttir, Arna Pétursdóttir og Sandra Hlín Guðmundsdóttir. Árni Hermann Björgvinsson hefur séð um tæknilega hlið verkefnisins og Félagsvísindastofnun HÍ hefur tekið þátt í gagnasöfnun.

Skýrslur, greinar, handrit og kynningar

Ína Björk Árnadóttir (2014). Þróun matstækis fyrir trú á eigin getu á sex sviðum kenningar Hollands: Próffræðilegir eiginleikar lokagerðar. MA verkefni við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Katrín Ósk Eyjólfsdóttir (2012) Tengsl persónuleika og starfsáhuga við framtíðarmarkmið á unglinsárum. MA verkefni við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Katrín Ósk Eyjólfsdóttir og Sif Einarsdóttir, Tengsl starfsáhuga og persónuleika við lífsmarkmið. Erindi flutt af báðum höfundum á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs HÍ, september 2011.

Sif Einarsdóttir og James Rounds (2013). Bendill, rafræn áhugakönnun: Þróun og notkun 2. útg. Reykjavík: Námsmatsstofnun.

Sun, J-T. (2011). Major life goals of college students: An investigation of personality traits, vocational interests and values. Doctoral Dissertation at the Department of Educational Psychology, University of Illinois at Urbana-Champaign.

Einarsdóttir, S., Guo, J., & Rounds, J. (2009, August). Personality and interest model to account for life goals and Aspirations. Poster presented at the annual convention of the American Psychological Association, Toronto.

Sun, J-T., Einarsdóttir, Guo, J., & Rounds, J. (í vinnslu). Personality and Interest Model Accounting for     Life-goals and Aspirations.

Einarsdóttir, S., Song, C. & Rounds, J. (áætlað) Long term changes of personality, vocational interests and life-goals relations in emerging adulthood.

Einarsdóttir, S Árnadóttir, Í. B.,  Song, C & Rounds, J. (áætlað) Personality, interest and self-efficacy model accounting for life goals.










Þetta vefsvæði byggir á Eplica