Gammablossar: Leiftur úr fjarlægri fortíð - lok verkefnis

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

25.1.2016

Markmið verkefnisins var að kanna stjörnumyndunarsögu alheims sem fall af tíma og varpa ljósi á hvenær fyrstu stjörnurnar og vetrarbrautirnar mynduðust.

Markmið verkefnisins var að kanna stjörnumyndunarsögu alheims sem fall af tíma og varpa ljósi á hvenær fyrstu stjörnurnar og vetrarbrautirnar mynduðust. Þetta er nú mögulegt með rannsóknum á glæðum gammablossa og hýsilvetrarbrautum þeirra, en blossarnir eru björtustu og orkumestu sprengingar í alheimi. Stuðst var við gögn frá hinu byltingarkennda Swift-gervitungli sem getur fundið og staðsett u.þ.b. 100 blossa á ári. Að auki var fjöldi sjónauka nýttur til hins ýtrasta, m.a. Norræni sjónaukinn á La Palma, Very Large Telescope í Síle og Hubble-geimsjónaukinn.

Heiti verkefnis: Gammablossar: Leiftur úr fjarlægri fortíð / Gamma-Ray Bursts: Blasts from the Past
Verkefnisstjóri: Páll Jakobsson, Raunvísindastofnun Háskólans
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2014
Fjárhæð styrks: 20,27 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 120008

Verkefnið skiptist í þrennt: (1) Útvíkkun á safni gammablossa með þekktri fjarlægð. Þetta skiptir sköpum þegar kanna á heildarorku blossanna og tengsl þeirra við stjörnumyndunarsögu alheimsins. (2) Markviss leit að fjarlægum gammablossum, þ.e. þegar aldur alheimsins var innan við 10% af núverandi gildi. Þessir blossar voru notaðir til að kanna stjörnumyndun í öndverðu og myndun fyrstu stjarnanna. (3) Auðkenna hýsilvetrarbrautir gammablossa út frá vel völdu safni. Ein af meginniðurstöðum verkefnisins var fundur þriggja blossa sem eiga rætur að rekja til sprenginga sem urðu fyrir tæplega 13 milljörðum ára, einungis 900 milljónum ára eftir Miklahvell. Aldur alheimsins var þá einungis 7% af núverandi aldri. Það er með ólíkindum að hægt sé að rannsaka svona fjarlæga og þýðingarmikla atburði í sögu alheimsins. Þessar uppgötvanir eru enn ein sönnun þess hversu mikilvægir gammablossar eru í rannsóknum á hinum unga alheimi.

Við erum nú sannfærðir um að enn fjarlægari blossar muni finnast á næstu árum - þeir munu ryðja brautina fyrir athuganir á fyrstu sólstjörnunum og endalokum hinna svokölluðu myrku alda í sögu alheimsins. Að auki var gerð mjög mikilvæg uppgötvun: Sprengistjörnur sem finnast samhliða gammablossum má nota sem staðalkerti, en það þýðir að þær gagnast sem ný mælistika til að meta vegalengdir í alheiminum. Þetta nýttum við til að meta svokallaðan Hubblesstuðul sem er mælikvarði á útþensluhraða alheimsins. Það gildi sem við fundum þannig er í fullu samræmi við nýjustu mælingar frá Planck-gervitungli Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) sem gerir mælingar á örbylgjukliðnum - bakgrunnsgeislun Miklahvells - með meiri nákvæmni en nokkurt annað gervitungl hingað til. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica