Framvinda gróðurs og vistkerfa við hörfandi jökla - verkefnislok

17.2.2014

Í lok 19. aldar náðu íslenskir jöklar mestri útbreiðslu frá því ísöld lauk en þeir bráðna nú hratt í hlýnandi loftslagi. Talið er að a.m.k. 4.000 km² lands gætu komið undan jökli á þessari öld og dæmi eru um að skriðjöklar í suðurhlíðum Vatnajökuls hafi hörfað 100-150 m á einu ári. Frá Skeiðarárjökli og austur í Hornafjörð breiðir hver skriðjökullinn eftir annan úr sér á láglendi, í tiltöluleg hlýju og röku loftslagi. Líta má á þessa jökla sem náttúrulega tilraun og nota þá til að prófa grundvallartilgátur um hvað stýrir stefnu og hraða gróðurframvindu. Á Skeiðarársandi hafa orðið ýmsar breytingar á umhverfi og saman hafa þær búið í haginn fyrir landnám plantna og þróun nýrra vistkerfa. Hlutar Skeiðarársands breytast nú mjög hratt.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Framvinda gróðurs og vistkerfa við hörfandi jökla
Verkefnisstjóri: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009-2011
Fjárhæð styrks: 17,495 millj kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 090255

Mikilvægi mosa fyrir landnám æðplantna og smádýralíf var rannsakað með samanburðarathugunum og tilraunum á Skeiðarársandi. Frumúrvinnsla bendir til þess að tegundaauðgi bæði æðplantna og smádýra sé meiri þar sem mosablettir mynda litlar eyjar í sandi en þar sem er annaðhvort aðeins sandur eða samfelldur mosi. Á blettóttu landi eru fleiri tegundir plantna og smádýra í mosablettunum en í sandinum.

Frumlandnám plantna sunnan Vatnajökuls er gríðarlega hratt. Minna en áratug eftir jökulhörfun er tegundaauðgi æðplantna við suma jökla af svipaðri stærðargráðu og á Eldhrauninu (225 árum eftir Skaftárelda) og á Skeiðarársandi 66 árum eftir síðasta stóra jökulhlaupið áður en jökullinn fór að hörfa. Fræregn inn á svæðin er mjög misjafnt milli jökla, >1000 spírunarhæf fræ/m² við jaðar Skaftafellsjökuls en < 200 spírunarhæf fræ/m² við Breiðamerkurjökul.

Hefðbundnar kenningar um gróðurframvindu segja að hún sé fyrirsjáanleg og lífverur hvers stigs séu nauðsynlegar til að búa í haginn fyrir næsta stig á eftir. Samanburður á framvinduferli við 6 skriðjökla (Morsárjökul, Skaftafellsjökul, Fjallsjökul, Breiðamerkurjökul, Skálafellsjökul og Svínafellsjökul eystri) bendir til þess að svæðin verði ólíkari með tímanum, þvert á það sem hin hefðbundna sýn á framvindu spáir. Þótt loftslag og umhverfi sé mjög áþekkt við alla jöklana, var vistkerfisþróun mishröð. Sums staðar hefur birki numið land en annars staðar eru grasleitar tegundir ríkjandi. Tegundasamsetning, fjölbreytileiki og fjarlægð í fræuppsprettu virðist skipta máli, og sýnir það mikilvægi tilviljanakenndra þátta í þróun plöntusamfélaga. Fræ ná þó einnig að berast yfir langar vegalengdir. Í jökulkerum ofarlega á Skeiðarársandi eru mun fleiri tegundir en á flatlendinu milli þeirra og um þriðjungur kerategundanna er eingöngu í kerunum og hefur að líkindum borist a.m.k. 12 km leið frá Skaftafelli.

Niðurstöður verkefnisins auka skilning okkar á landnámi plantna og þróun gróðurs á nýju yfirborði og verða þær birtar í vísindagreinum á næstunni. Þá er sú þekking sem fæst út úr verkefninu mikilvæg í endurheimt mó- og kjarrlendis því vistheimt gengur út á að örva og stýra framvindu vistkerfa. Rannsóknirnar fóru að mestu leyti fram innan Vatnajökulsþjóðgarðs og unnt verður að nýta niðurstöður þeirra við fræðslu í þjóðgarðinum. Verkefnið hefur verið kynnt með yfir 30 veggspjöldum og fyrirlestrum á ráðstefnum og fundum utanlands og innan auk greina í erlendum vísindatímaritum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir (Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla íslands) og

Kristín Svavarsdóttir (Landgræðslu ríkisins).









Þetta vefsvæði byggir á Eplica