Leiðir minni efnishyggja til meiri velsældar? Rannsóknir á lífsgildabreytingum á Íslandi og Bretlandi - verkefnislok

20.6.2014

Niðurstöður rannsóknar Rögnu B. Garðarsdóttur hjá Sálfræðideild Háskóla Íslands á lífsgildum Íslendinga liggja nú fyrir. Niðurstöður benda til þess að efnishyggja hafi ekkert breyst í kjölfar efnahagskreppunnar. Það sama má segja um samfélags- og fjölskyldugildi. 

Heiti verkefnis: Leiðir minni efnishyggja til meiri velsældar? Rannsóknir á lífsgildabreytingum á Íslandi og Bretlandi
Verkefnisstjóri: Ragna Benedikta Garðarsdóttir
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Styrkfjárhæð: 15,658 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100616

Þessar niðurstöður koma nokkuð á óvart þar sem búast hefði mátt við endurskoðun þessara gilda í kjölfar áfallsins sem efnahagshrunið var. Þó verður að taka fram  að rannsóknin náði aðeins yfir þrjú ár og líklegt er að það taki lengri tíma en það fyrir lífsgildi að breytast.

Aftur á móti sýna niðurstöður áhugaverðar breytingar á hamingju þátttakenda frá 2010 til 2012. Hamingja þeirra sem eru betur settir með tilliti til efnahags- og þjóðfélagslegrar stöðu hefur dalað.  Hamingja hinna, sem eru verr settir með tilliti til efnahags- og þjóðfélagsstöðu hefur aukist. Athyglisvert er að þetta bendir í fyrsta lagi til þess að hamingja sé ólík eftir þjóðfélagshópum, en aðrar rannsóknir á hamingju Íslendinga hafa ekki bent til þess.  Í öðru lagi bendir þetta til þess að dregið hafi saman með þessum hópum hvað varðar hamingju. Óljóst er hvað veldur þessu en meðal mögulegra skýringa má benda á að þrátt fyrir að kaupmáttur allra hafi minnkað á þessu tímabili hefur tekjudreifing orðið jafnari. Þannig geta niðurstöðurnar mögulega verið til marks um aukinn félagslegan jöfnuð í samfélaginu.

Afrakstur verkefnisins má einnig telja í þremur ráðstefnukynningum, einni birtri fræðigrein, sex handritum að greinum til fræðirita, átta grunnnámsritgerðum og tveimur ritgerðum á meistarastigi. Við þetta má bæta að niðurstöður þessa verkefnis gefa tilefni til frekari rannsókna á ójöfnuði á sálrænni líðan meðal Íslendinga. Eitt doktorsverkefni er nú unnið úr þessum niðurstöðum þar sem frekari skýringa verður leitað, til dæmis í tekjudreifingu og félagsleglegri samheldni.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica