Kjósendur og frambjóðendur 2013: Íslenska kosningarannsóknin og Íslenska frambjóðendarannsóknin - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

7.8.2015

Íslenska kosningarannsóknin er nú með þeim elstu sinnar tegundar í Evrópu og ein af þeim fáu þar sem vel hefur verið gætt að samræmi á milli ára og þess vegna einstakt tækifæri til að skoða breytingar á þeim mörgu þáttum er lúta að kosningahegðun. 

Heiti verkefnis: Kjósendur og frambjóðendur 2013: Íslenska kosningarannsóknin og Íslenska frambjóðendarannsóknin
Verkefnisstjóri: Ólafur Þ. Harðarson, Háskóla Íslands

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2014
Fjárhæð styrks: 10,455 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 130227  

Íslenska kosningarannsóknin, sem nú spannar 30 ár í sögu íslenskra kjósenda, hefur frá upphafi verið styrkt af Rannsóknasjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands ásamt fleirum. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 1983, þá sem hluti af doktorsverkefni Ólafs Þ. Harðarsonar, sem hefur stýrt verkefninu frá þeim tíma. Íslenska kosningarannsóknin er nú með þeim elstu sinnar tegundar í Evrópu og ein af þeim fáu þar sem vel hefur verið gætt að samræmi á milli ára og þess vegna einstakt tækifæri til að skoða breytingar á þeim mörgu þáttum er lúta að kosningahegðun. Fjölmargar greinar og greiningar hafa verið gerðar þar sem notuð er gögn úr Íslensku kosningarannsókninni, bæði þar sem eingöngu eru teknar til skoðunar kosningarnar 2013 sem og hvað hefur breyst frá árinu 1983. Í grein sem Eva H. Önnudóttir vinnur að, ásamt Ólafi Þ. Harðarsyni og Hermann Schmitt, “Critical election in the wake of a crisis”, leiða þau líkum að því að kosningarnar árið 2009 hafi verið krítískar kosningar í þeim skilningi að kosningahegðun kjósenda hafi breyst verulega frá því sem áður var – og að þær breytingar ganga ekki til baka nema að litlu leyti í kosningum 2013. Flokkshollusta og hugmyndafræðileg nálægð við flokka hafði mun minna skýringagildi í kosningunum 2009 samanborið við áður, og sú breyting sem átti sér stað 2009, gekk ekki til baka í kosningunum 2013. Breytingar sem þessar verða undir venjulegum kringumstæðum hægt yfir tíma og oftast með kynslóðabreytingum.

Árið 2009 hafði það að líka vel við flokk minna skýringagildi en áður, en styrktist aftur sem forspá um hvaða flokkur var kosinn 2013. Það getur bent til þess að endurröðun sé að eiga sér stað meðal íslenskra kjósenda, þar sem þeir mynda tengsl við aðra stjórnmálaflokka en áður – en enn er of snemmt að skera úr um hvort slíkt sé að eiga sér stað til framtíðar.

Í grein um kosningarnar 2013, “Re-electing the culprits” sem Indriði H. Indriðason, Eva H. Önnudóttir, Hulda Þórisdóttir og Ólafur Þ. Harðarson vinna saman að og er nú á lokastigum, velta þau upp þeirri spurningu af hverju þeir flokkar sem var kennt mest um hrunið af öllum stjórnmálaflokkunum, unnu þær kosningar. Niðurstaða kosninganna 2013 gengur gegn því sem venjulega er haldið fram um áhrif efnahagsmála á kosningu, bæði vegna þess að þeir flokkar sem var mest kennt um hrunið unnu kosningarnar og vegna þess að á kjörtímabili Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafði efnahagsástandið batnað. Þau sýna fram á, í þessari grein, að Framsóknarflokkurinn hagnaðist á niðurstöðu EFTA-dómstólsins varðandi Icesave málið. Framsóknarflokkurinn var eini flokkurinn sem setti sig upp á móti öllum samningum um Icesave og í kjölfar úrskurðar EFTA-dómstólsins fékk hann aukinn trúverðugleika í huga kjósenda um að hans lausnir varðandi skuldaleiðréttingu íbúðalánasjóða væru farsælar. Efnahagsmálin höfðu því óbeint áhrif á niðurstöður kosninganna 2013, þar sem þau settu skuldamál heimilanna á dagskrá, og kosningabaráttan snerist um hvaða flokkur væri með bestu lausnirnar í þeim málum.

Fyrir utan þær tvær greinar sem minnst er á hér eru fjölmargar aðrar í vinnslu ásamt bókaköflum og hér fyrir neðan eru valdar greinar og bókakaflar í tímaröð:

Bergsson, B. Þ. (2014). Political parties and Facebook: A study of Icelandic political parties and their social media usage. Icelandic Review of Politics & Administration, 10(2), 341-368. Tímarit í opnum aðgangi: http://www.irpa.is/article/view/1597

Hardarson, Ó. Th. og Kristinsson, G.H. (2014). Iceland. European Journal of Political Research Political Data Yearbook (53)1: 155-161. Tímarit í opnum aðgangi: http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/2047-8852.12014/abstract

Þórisdóttir, H.. (forthcoming, September 2015). The left-right landscape over time: The view from a Western-European multi-party democracy. Í Jesse Graham and Piercarlo Valdesolo (ritstjórar), Claremount Symposium. Psychological Press. Kynnt á ráðstefnu: “the European Consortium for Political Research” í águst 2014.

Magelhães, P. og Önndóttir, E. H. (í vinnslu). The economy and the vote. In Hermann Schmitt og Paolo Segatti (ritstjórar), The New European Voter.

Önnudóttir, E. H., Schmitt, H. og Harðarson, Ó. Þ. (í vinnslu). Critical election the wake of a crisis: Realignment in making? (Áður: Iceland's critical 2009 election: Realignment in making?). Kynnt á ráðstefnu “the Midwest Political Science Association” (MPSA) í Chicago, 3-6.Apríl 2014, og á Afmælishátið Íslensku kosningarannsóknarinnar í Háskóla Íslands, 15. maí 2014.

Indriðason, I.H., Önnudóttir, E.H., Þórisdóttir, H. og Harðarson, Ó.Þ (í vinnslu). Re-electing the culprits: Election in Iceland in times of economic recession. Kynnt á ráðstefnu “the EUDO Dissemination Conference: Elections in Europe in Times of Crisis”, Flórens, 28.-29.nóvember 2013.

Indriðason, I.H, Bowler, S. og Önnudóttir E. H. (í vinnslu). Patterns of party competition: Ideological proximity and coalition potential. Kynnt á ráðstefnu: “the European Political Science Association” (EPSA) í Vín, 25-27. Júní, 2015.

Bengtsson, Å. og Önnudóttir, E. H. (í vinnslu) Candidates' representational roles. Í Lieven De Winter, Georg Lutz og Hermann Schmitt (ritstjórar), Political Elites in Electoral Democracy.

Harðarson, Ó. Þ., Önnudóttir, E.H. (in progress). Icelandic Voters for 30 years. Bókahandrit. Höfundalisti gæti breyst.

Björnsson, S.F. (2015). Ávinningur kosningaherferða: Áhrif aðgerða stjórnmálaflokka fyrir alþingiskosningar 2013. BA ritgerð við Háskóla Íslands á vorönn. Í opnum aðgangi á: http://hdl.handle.net/1946/17715










Þetta vefsvæði byggir á Eplica