Áhrif næringardrykkja, í samanburði við orku- og próteinríkar millimátíðir, á lífsgæði og líkamsþyngd sjúklinga með langvinna lungnaþembu (COPD) - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

15.3.2018

Markmið rannsóknarinnar var að meta hvort unnt væri að nota orku- og próteinríka millibita til að bæta næringarástand og auka lífsgæði vannærðra sjúklinga með COPD með sambærilegum árangri og áður hafði sést með notkun næringardrykkja.

Íhlutandi rannsóknir sem hafa haft það að markmiði að bæta næringarástand vannærða sjúklinga með langvinna lungnaþembu (COPD) (og annarra sjúklingahópa) hafa flestar notað tilbúna næringardrykki sem viðbót við hefðbundið fæði. 

Þátttakendur voru vannærðir sjúklingar með COPD sem slembidreift var annars vegar í hóp sem fékk tilbúna næringardrykki og hins vegar hóp sem fékk orku- og próteinríka millibita til viðbótar við sitt hefðbundna mataræði, alls í 12 mánuði (um 600 hitaeininga viðbót á dag). Aðalútkomubreytur rannsóknarinnar voru þyngd og heilsutengd lífsgæði. Báðir hópar þyngdust marktækt á því 12 mánaða tímabili sem rannsóknin stóð yfir. Þyngdaraukning nam 2,3 ± 4,6 kg í hópnum sem fékk næringardrykki og hópurinn sem fékk millibitana þyngdist um 4,4 ± 6,4 kg. Lífsgæði jukust verulega á 12 mánaða tímabili meðal 60% þátttakenda.

Niðurstöðurnar benda til þess að unnt sé að nota orku- og próteinríka millibita (venjulegan mat) til jafns við tilbúna næringardrykki í næringarmeðferð vannærðra sjúklinga með COPD. Bendir þetta til þess að unnt sé að innleiða fjölbreyttari (og ódýrari) úrræði fyrir vannærða sjúklinga heldur en gert er í dag þar sem hefðbundin næringarmeðferð felst í gjöf næringardrykkja. Hluti niðurstaðna verkefnisins hefur þegar verið birtur í alþjóðlegu vísindatímariti og hlotið viðurkenningu á alþjóðlegri ráðstefnu. Frekari kynning niðurstaðna er fyrirhuguð á erlendum og innlendum vettvangi. Rannsóknahópurinn mun einnig vinna að hagnýtingu niðurstaðna verkefnisins á næstu misserum, bæði innan Landspítala og kynna niðurstöðurnar á öðrum stofnunum þar sem tíðni vannæringar hefur mælst umtalsverð (t.d. öldrunarstofnunum).


Heiti verkefnis: Áhrif næringardrykkja, í samanburði við orku- og próteinríkar millimátíðir, á lífsgæði og líkamsþyngd sjúklinga með langvinna lungnaþembu (COPD).
Verkefnisstjóri: Ingibjörg Gunnarsdóttir, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 27,14 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  141316









Þetta vefsvæði byggir á Eplica