Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð - verkefnislok

5.3.2014

Verkefnið „Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð“ var styrkt af Rannsóknasjóði 2010–2012. Verkefnisstjóri var Höskuldur Þráinsson og meðumsækjendur Kristján Árnason, Sigríður Sigurjónsdóttir, Matthew James Whelpton og Þórhallur Eyþórsson. Markmið verkefnisins var að leita svara við eftirtöldum aðalspurningum:

  •    Að hvaða marki breytir fullorðið fólk máli sínu í áranna rás?
  •    Eru einhverjir þættir málsins líklegri en aðrir til þess að breytast smám saman?

  small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð
Verkefnisstjóri:  Höskuldur Þráinsson, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Styrkfjárhæð: 19,994 millj. kr. alls

Ástæðurnar fyrir því að þessar spurningar þóttu fræðilega áhugaverðar eru einkum þessar: Í sumum kenningum um eðli málbreytinga er lögð megináhersla á að skýra hvernig nýjungar koma upp í máli. Í því sambandi er þá einkum horft til þess hvernig börn tileinka sér málið en að mestu litið framhjá þeim möguleika að mál fullorðins fólks geti breyst smám saman. Í öðrum kenningum er kappkostað að útskýra hvernig málbreytingar breiðast út og lítill gaumur gefinn að því hvernig þær kunna að hafa kviknað. Tilgáta okkar var sú að sumir þættir málsins gætu breyst smám saman í máli fullorðinna en aðrir ekki eða síður. Við höfðum einstakt tækifæri til að prófa þessa tilgátu með því að bera saman þróun valinna breyta í  íslensku hljóðkerfi og setningagerð með því að gera nýja rannsókn sem fæli í sér samanburð við eldri rannsóknaniðurstöður.

Í hljóðkerfisfræðilega hlutanum gerðum við þetta með viðtölum við málnotendur sem áður höfðu tekið þátt í framburðarkönnunum. 210 af þeim höfðu tekið þátt í tveim slíkum könnunum áður (fyrst upp úr 1940 og síðan upp úr 1980), 322 höfðu aðeins tekið þátt í hliðstæðri könnun upp úr 1980 og 101 aðeins í samsvarandi könnun upp úr 1940. Síðasttaldi hópurinn hafði flutt búferlum (þ.e. utan af landi til Reykjavíkur) á tímabilinu. Alls voru þátttakendur í þessum hluta því yfir 600 og við höfðum gögn um framburð helmings þeirra frá því fyrir um 65 árum. Slíkt mun vera einstakt í heiminum. Fjölmargir fyrirlestrar hafa verið fluttir um þennan þátt verkefnisins, bæði innanlands og erlendis, tvær BA-ritgerðir hafa verið skrifaðar (Katrín María Víðisdóttir og Margrét Lára Höskuldsdóttir) og ein doktorsritgerð er í vinnslu (Margrét Guðmundsdóttir, vörn áætluð 2016). Ein tímaritsgrein er í prentun (Margrét Lára Höskuldsdóttir). Þá er unnið að undirbúningi bókar (væntanlega greinasafns hjá Benjamins í Amsterdam) í samvinnu við aðstandendur hliðstæðra verkefna í Kaupmannahöfn og Bergen (Frans Gregersen og Helge Sandøy), en þeir stóðu með okkur að sérstakri málstofu um „málbreytingar í rauntíma“ á alþjóðlegri málvísindaráðstefnu í Reykjavík í maí 2013. Enn er verið að vinna úr niðurstöðum þessa hluta. Meginlínurnar eru hins vegar þær að sum framburðaratriði eru líklegri en önnur til að breytast í máli fólks í áranna rás. Tíðni ákveðinna framburðareinkenna getur vaxið eða minnkað en fólk tekur yfirleitt ekki upp alveg ný framburðareinkenni á fullorðinsárum. Þá hafa félagslegar aðstæður mismikil áhrif á útbreiðslu ólíkra framburðarafbrigða.

Í setningafræðilega hlutanum fólst rannsóknin í því að leggja tiltekna könnun fyrir ákveðinn hóp einstaklinga sem höfðu áður tekið þátt í sams konar könnun 10–12 árum fyrr, þá á unglingsaldri. Hér er um nýja setningagerð að ræða, þ.e. nýju þolmyndina eða nýju ópersónulegu setningagerðina. Þegar Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling gerðu fyrri rannsóknina um 1999 virtist þessi setningagerð bundin við unglinga og fullorðið fólk hafnaði henni alfarið. Í okkar rannsókn var samsvarandi könnun lögð fyrir 200 einstaklinga sem höfðu tekið þátt í hinni upphaflegu rannsókn. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar í fyrirlestrum innanlands og erlendis, m.a. á áðurnefndri málstofu á alþjóðlegri ráðstefnu í maí 2013 og á Hugvísindaþingi. Einn bókarkafli er í prentun (Sigríður Sigurjónsdóttir) og um þetta efni verður líka fjallað í  þeirri bók sem unnið er að í samvinnu við Gregersen og Sandøy. Þá hafa verið lögð drög að útgáfu bókar um tilbrigði í íslenskri og færeyskri setningagerð (í samvinnu við málfræðinga í Skotlandi og Færeyjum en hjá Ohio State University Press) og umfjöllun um nýju þolmyndina og þróun hennar verður með í þeirri bók. Svo er að sjá sem fólk tileinki sér þessa setningagerð á máltökuskeiði en ekki síðar á ævinni, en aftur á móti getur dregið út notkun hennar hjá einstökum málnotendum eða þeir orðið neikvæðari gagnvart henni þegar þeir eldast.

Af þessu má sjá að ákveðinn samhljómur er í niðurstöðum beggja þátta rannsóknarinnar: Ákveðin atriði í máli geta „færst í aukana“ eða látið undan síga í máli fullorðins fólks í áranna rás, en fólk tekur yfirleitt ekki upp algjörlega ný málfarsatriði eftir að það er komið á fullorðinsaldur.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica