Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi – verkefnislok í Rannsóknasjóði

20.11.2012

Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar og skilnings á borgaravitund ungmenna til sjávar og sveita. Leitað er meðal annars eftir hugmyndum þeirra um lýðræði, mannréttindi, þeim áhrifum sem þau telja sig hafa í samfélagi sínu, hvaða áhrif þau vildu hafa og hvert gildismat þeirra er.

 

Heiti verkefnis: Borgaravitund ungs fólks í lýðræðisþjóðfélagi
Verkefnisstjóri:  Sigrún Aðalbjarnardóttir, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009-2011
Styrkfjárhæð: 12,316 millj. kr. alls

Þátttakendur eru 11, 14 og 18 ára, rúmlega 1400 talsins úr þremur byggðakjörnum landsins. Viðamiklum gögnum hefur verið safnað, bæði með viðtölum og spurningalistum. Borgaravitund ungmennanna er greind með hliðsjón af ýmsum félagslegum, sálfræðilegum og uppeldis- og menntunarfræðilegum þáttum.

Mikil úrvinnsla gagna er framundan en helstu niðurstöður sem fram hafa komið eru eftirfarandi: Stúlkur sýna yfirleitt ríkari borgaravitund en piltar, t.d. á því hvað lýðræði stendur fyrir; þeim þykir þátttaka í félagslegum hreyfingum mikilvægari og þær hafa almennt jákvæðara viðhorf til réttinda og tækifæra kvenna og innflytjenda. Þau ungmenni sem eiga foreldra sem lokið hafa háskólaprófi sýna meiri skilning á því hvað lýðræði merkir og hafa jákvæðara viðhorf til réttinda kvenna og innflytjenda. Menntun foreldra skiptir þó ekki máli um afstöðu ungmennanna til mikilvægis borgaralegrar þátttöku.

Ungmennin tengja markmið sín með sjálfboðaliðastarfi bæði persónulegum og samfélagslegum ávinningi. Þau vilja með þátttöku sinni styrkja sig sem manneskjur og gefa af sér með einum eða öðrum hætti í samfélaginu og hafa áhrif til umbóta. Gildin sem endurspeglast í sýn þeirra eru m.a. réttlæti, samkennd, hjálpsemi og ábyrgð. Þá kemur fram að ungmenni sem taka þátt í sjálfboðaliðastarfi eru líklegri til að hafa ríkari samkennd og jákvæðari viðhorf til borgaralegrar þátttöku en þau sem ekki taka þátt.

Með tilliti til viðhorfs ungmennanna til innflytjenda kemur fram að þau sem sýna ríkari réttlætiskennd hafa jákvæðara viðhorf til innflytjenda. Jafnframt kemur fram að hvatning kennara til nemenda til að taka þátt í lýðræðislegum umræðum um margvísleg mál ásamt sýn nemenda á eigin virkni í umræðu, hafa gildi fyrir jákvæð viðhorf þeirra til tækifæra og réttinda innflytjenda.

Vonir eru bundnar við að niðurstöður rannsóknarinnar hvetji þá sem vinna með börnum og ungmennum til að efla samkennd og réttlætiskennd ungmennanna og styrkja þau til virkrar þátttöku í lýðræðislegum umræðum um mikilvæg málefni samfélagsins. Hér er átt við umræður þar sem börn og ungmenni eru reiðubúin til og finnst mikilvægt að tjá skoðanir sínar, hlusta með virðingu á mismunandi skoðanir fólks, skoða og velta fyrir sér mismunandi hliðum mála og ná sátt og samkomulagi.

Í víðara samhengi ættu niðurstöður rannsóknarinnar, sem fram hafa þegar komið og munu koma fram á næstum árum, að geta orðið mikilvægt framlag til rannsókna á borgaravitund barna og ungmenna bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi og hafa fræðilegt gildi sem slíkar. Þær ættu jafnframt að geta lagt grunn að frekari hagnýtum rannsóknum. Þá ættu niðurstöður rannsóknarinnar að geta orðið mikilvægur grunnur umræðu í þjóðfélaginu um borgaravitund. Í þessu samhengi má benda á þá miklu umræðu sem fer fram í lýðræðisríkjum um allan heim, sem birtist til dæmis í stefnumörkun Evrópusambandisins í menntamálum og námskrám þjóða, meðal annars hér á landi í grunnþættinum 'lýðræði og mannréttindi' (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011) um hve mikilvægt sé að vinna að því að efla borgaravitund ungs fólks, þ.á.m. vitund þess um mannréttindi og lýðræði. Niðurstöðurnar ættu því að geta haft gildi fyrir stefnumörkun í menntamálum, jafnt sem stjórnendur og annað fagfólk í menntamálum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica