Sálmæling á aðlögunarhæfni á starfsferli - verkefnislok í Rannsóknasjóði

4.1.2013

Teymi íslenskra vísindamanna hefur í samvinnu við hóp erlendra vísindamanna hannað sálmælingu á aðlögunarhæfni á starfsferli, sem mælir að hvaða marki einstaklingar búa yfir þeirri hæfni sem þarf til að ráða við breytingar á starfsferli.

 small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Sálmæling á aðlögunarhæfni á starfsferli
Verkefnisstjóri:  Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009-2011
Styrkfjárhæð: 5,84 millj. kr. alls

 

KANS nýtt mælitæki sem kortleggur aðlögunarhæfni á starfsævinni

Nú á tímum er þörf á að búa yfir hæfni til að bregðast við starfsskiptum, atvinnuleysi og öðrum starfstengdum áföllum sem verða til í hringiðu efnahagslífsins. Sífellt bætast við ný fyrirtæki og störf en önnur úreldast. Við þessar aðstæður í atvinnulífinu eru starfsskipti tíðari og atvinnuleysi algengara. Þegar svo ber undir þurfa starfandi manneskjur oft að leysa illskiljanleg og erfið verkefni sem reyna á hæfni til aðlögunar að breyttum aðstæðum á starfsferli.  Að átta sig á tilgangi starfs í eigin lífi verður að þungamiðju starfsreynslunnar, ólíkt því sem áður var þegar starfið mótaðist af vinnustaðnum og ferillinn gekk út á að vinna sig upp innan tiltekins fyrirtækis eða stofnunar.

Teymi íslenskra vísindamanna hefur í samvinnu við hóp erlendra vísindamanna hannað sálmælingu á aðlögunarhæfni á starfsferli, sem mælir að hvaða marki einstaklingar búa yfir þeirri hæfni sem þarf til að ráða við breytingar á starfsferli. Stjórnandi alþjólegu rannsóknarinnar er dr. Mark Savickas prófessor í starfssálarfræði í Northeastern Ohio University College of Medicine. Hann er höfundur fræðikenningarinnar um smíð starfsferilsins (Career Construction Theory) og án efa alþjóðlegur leiðtogi í fræðastarfi á sviði starfssálarfræði og náms- og starfsráðgjafar. Í alþjóðlegu samstarfi var hönnuð mæling á aðlögunarhæfni á starfsferli, en síðan þróuðu þátttökulöndin hvert sitt mælitæki út frá menningarbundnum aðstæðum í hverju landi. Gerð er grein fyrir niðurstöðum þessa alþjóðlega samstarfs í júníhefti tímaritsins Journal of Vocational Behavior.

Íslenska mælitækið Könnun á aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli, skammstafað KANS,  kortleggur þá færni sem þarf til að mæta og aðlagast breytingum á starfsferli. En í hverju felst þessi færni? Aðlögunarhæfni á starfsferli er skilgreind sem félagsleg og sálræn bjargráð sem einstaklingar grípa til þegar breytingar verða á starfshögum. Breytingar geta tengst þroska, starfsskiptum eða áföllum í vinnu. Þessar breytingar geta haft mikil áhrif á félagslega stöðu, þar sem bæði afkoma og virðing tengist starfi einstaklings. Bjargráðin sem fólk grípur til eru undir hverjum og einum komin og lúta að því að ráða við verkefni á starfsferlinum sem tengjast þroska, umskiptum og áföllum í námi og starfi.

Aðlögunarhæfni á starfsferli er eiginleiki sem nýtist einstaklingum til þess að takast á við bæði fyrirsjáanlegar og ófyrirsjáanlegar breytingar á starfsferlinum. Kenning Savickas um smíð starfsferilsins skilgreinir fjórar megin víddir aðlögunarhæfni á starfsferli. Þær eru umhugsun (concern), stjórnun (control), forvitni (curiosity) og sjálfstraust (confidence). Víddirnar lýsa bjargráðum og aðgerðum sem fólk reiðir sig á þegar það mætir breytingum á starfsferli. Úrræðagóðum einstaklingum með góða aðlögunarhæfni er umhugað (concern) um framtíð sína í starfi, þeir hafa í vaxandi mæli stjórn (control) á framtíðarstefnu á starfsferli, þeir eru forvitnir (curiosity) um sig sjálfa og framtíðarmöguleika sína og þeir hafa aukið sjálfstraust (confidence) og vissu fyrir að geta uppfyllt óskir sínar. Dæmi um vandamál sem geta komið upp varðandi umhugsun á starfsferli er skeytingarleysi eða kæruleysi. Vandamál í stjórn væri óákveðni. Í þessum tilvikum er aðlögunarvandi til staðar. Þegar aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli var könnuð meðal Íslendinga kom í ljós að þeir töldu samvinnu (co-operation) við aðra mikilvæga til að bregðast við breytingum og einnig sýnir það sig að samfélagsvitund (citizenship), það að verða að gagni í samfélaginu, er mikilvæg leið til aðlögunar á starfsferli hér á landi.

Rannsóknin var í fjórum þrepum. Fyrst var alþjóðlega mælitækið þýtt og lagt fyrir tæplega 500 grunn- og framhaldsskólanemendur. Því næst voru séríslensk atriði og kvarðar þróaðir út frá niðurstöðum rýnihóparannsóknar.  Um 90 atriða listi var lagður fyrir um 1250 háskólanemendur. Á grundvelli áreiðanleikamælinga og staðfestandi þáttagreiningar var atriðum fækkað í 67 og lagt fyrir í landsúrtaki 15-65 ára fólks. Þátttakendur voru tæplega 1600. Tölfræðileg greining tók svo við og atriðum var fækkað í 36 atriði sem skiptast  á sex kvarða.

Handbók um notkun Könnunar á aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli - KANS hefur einnig verið gefin út og mun hún gagnast þeim náms- og starfsráðgjöfum, sálfræðingum og öðrum fagmönnum sem hyggjast nýta könnunina í að aðstoða fólk sem stendur frammi fyrir breytingum á starfsævinni.

Verkefnisstjóri rannsóknarinnar var dr. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Ef óskað er nánari upplýsinga um þetta efnið er bent á Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur (gudvil@hi.is)

Skrá yfir birt efni þar sem verkefnið hefur verið kynnt

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir og Andrea G. Dofradóttir.(2012). Könnun á aðlögunarhæfni á náms- og starfsferli. Handbók. Reykjavík: Félagsvísindastofnun.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir og Guðrún Birna Kjartansdóttir (2009). Breyttar aðstæður á starfsferli og getan til að laga sig að þeim. Í Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir (ritst.) Rannsóknir í félagsvísindum X. (bls. 739−746). Reykjavík: Félagsvísindastofnun - Háskólaútgáfa.

Vilhjálmsdóttir, G., Kjartansdóttir, G. B., Smáradóttir, S. B., og Einarsdóttir, S. Career adapt-abilities scale - Icelandic form: Psychometric properties and construct validity, Journal of Vocational Behavior, 80, (3), 698-704.

 

 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica