Þáttur botnskriðs í hreyfingu íslenskra jökla - verkefnislok í Rannsóknasjóði

16.1.2013

Botnskrið er sá þáttur í hreyfingu jökla sem getur breyst mest og hraðast. Í núverandi líkanreikningum af viðbrögðum íslenskra jökla við veðurfarsbreytingum skortir nákvæmari lýsingu á botnskriði og tengslum þess við vatnsmagn við botn. Því var þörf á, af vísindalegum ástæðum, að finna betri leiðir til að reikna botnskrið. Auk þess þarf að leita svara við því hvort jöklar gætu horfið mun hraðar en spáð er með núverandi líkönum vegna hlýnandi loftslags; vegna aukinnar leysingar aukist botnskrið hraðar en núverandi líkön benda til. Í þessu verkefni voru þróuð líkön af vatnsrennsli og dreifingu vatns við jökulbotn. Einnig var þróuð reynslujafna sem tengir saman líkön af orkubúskap jökla, til að finna magn bræðsluvatns, og botnskriðshraða. 

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Þáttur botnskriðs í hreyfingu íslenskra jökla
Verkefnisstjóri: Þröstur Þorsteinsson, Jarðvísindastofnun Háskólans
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2008-2010
Fjárhæð styrks: 8,4 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 080209

 

Bættur skilningur á viðbrögðum jökla við veðurfarsbreytingum auðveldar alla ákvarðanatöku sem þeim tengjast. Þar má nefna virkjanir og vegaframkvæmdir, auk ferðamannaiðnaðar. Niðurstöður þessa verkefnis verða einnig framlag til reikninga á viðbrögðum stóru ísbreiðanna, sér í lagi útjökla Grænlandsjökls og á Suðurheimskautinu og þar af leiðandi breytinga á sjávarstöðu og þeim áhrifum sem bráðnun jökla hefur.

Verkefnisstjóri og jöklahópur Jarðvísindastofnunar tekur þátt í verkefni á vegum European Union Framwork-7 scheme, sem kallast "Ice2sea". Framlag jöklahóps jarðvísindastofnunar er að leggja til fræðanna og athugana á áhrifum vatns á hreyfingu jökla. Stóra myndin í verkefninu er svo að meta framlag Grænlands til hækkunar í heimshöfunum. Íslenskir jöklar og sú þekking sem aflað var í þessu verkefni getur þar lagt lóð á vogaskálarnar, sér í lagi þegar kemur að botnskriði.

Þröstur Þorsteinsson, dósent, Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands var verkefnisstjóri í þessu verkefni, sem unnið var með jöklahópi Jarðvísindastofnunar Háskólans; Helgi Björnsson, Dr. Philos., Finnur Pálsson, C.Sc., Eyjólfur Magnússon, Ph.D. og Sverrir Guðmundsson, M.Sc. Jöklahópur Jarðvísindastofnunar býr yfir mikilli þekkingu á jöklum landsins og gögnum um landslag undir jökli, jökulyfirborð, hraðamælingar (bæði punktmælingar og hraðasvið fundið með gervitunglamyndum), veðurþætti á jöklum, leysingu og afrennsli vatns, auk niðurstaðana af líkanreikningum um viðbrögð jökla við afkomu.

 

  • Throstur Thorsteinsson, Sven Þ. Sigurðsson, Sverrir Guðmundsson, Eyjólfur Magnússon, Helgi Björnsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, and Finnur Pálsson. Water and ice:How to account for the effects of water on glacier flow? Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands, 26 March 2010, Askja.
  • Throstur Thorsteinsson, Sven Þ. Sigurðsson, Sverrir Guðmundsson, Eyjólfur Magnússon, Helgi Björnsson, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, and Finnur Pálsson. Water and ice:How to account for the effects of water on glacier flow? First Ice2sea Open Forum, 17 - 18 March 2010, Krakow, Poland.
  • Þröstur Þorsteinsson - Helgi Björnsson, Sverrir Guðmundsson and Finnur Pálsson. Glaciers slipping and sliding in Iceland. ESF workshop, Mallorca, Spain. May 27 - 29, 2008.
  • Skýrsla "Dreifing vatns á botni jökla".








Þetta vefsvæði byggir á Eplica