Efling heilbrigðis og sjálfsumönnunar hjá fólki með langvinna lungnateppu og fjölskyldum þeirra - verkefnislok

21.2.2013

Tilgangur rannsóknar var að meta árangur sjálfsumönnunarmeðferðar byggðri á samráði við fólk með langvinna lungnateppu og fjölskyldur þeirra m.a. á heilsutengd lífsgæði, áhrif sjúkdóms, kvíða og þunglyndi, reykbindindi, versnanir  á sjúkdómi og hreyfingu.
small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Efling heilbrigðis og sjálfsumönnunar hjá fólki með langvinna lungnateppu og fjölskyldum þeirra 
Verkefnisstjóri: Helga Jónsdóttir, Háskóla Íslands, Landspítala-háskólasjúkrahúsi
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
 Styrkár: 2009-2011
Fjárhæð styrks: 7,6 millj. kr. alls

Tilvísunarnúmer Rannís: 090448

Beitt var tilraunasniði og þátttakendum raðað tilviljunarkennt í meðferðarhóp (n=48 luku) og samanburðarhóp (n=52 luku). Fjórðungur hafnaði þátttöku. Innan við þriðjungur hafði fjölskyldumeðlim með sér (n=30). Meira en helmingur þátttakenda reykti. Meðalaldur var 59 ár, konur voru 54 og karlar 46. Flestir voru með vægan eða miðlungs alvarlegan sjúkdóm. Meðferðin varði í 6 mánuði og eftirfylgd í aðra 6 mánuði. Hún var einstaklingsmiðuð og fólst í 3-4 einstaklings- eða fjölskylduviðtölum, meðferð til reykleysis (allt að 6 mánuðum), ásamt einum hópfræðslutíma. Samráð og samvinna voru lykilatriði í samræðum og fræðslu m.a. um heilsusamlegt líferni, sjúkdóminn og meðferð við honum, hreyfingu og næringu, kennslu í notkun innöndunarlyfja og öndunaræfingar.

Niðurstöður sýna að enginn munur var á heilsutengdum lífsgæðum á milli hópanna eftir 12 mánuði. Einkenni sjúkdóms höfðu versnað marktækt í báðum hópum eftir 12 mánuði. Áhrif sjúkdóms á  einstaklinga í meðferðarhópi voru marktækt minni eftir 12 mánuði. Enginn munur var á milli hópanna á kvíða og þunglyndi eftir 12 mánuði. Heildarstig kvíða og þunglyndis, svo og undirkvarðinn kvíði, versnuðu marktækt í báðum hópunum. Enginn munur var á fjölda versnana eftir 12 mánuði. Fjöldi versnana jókst markækt í báðum hópunum. Enginn munur var á milli hópanna á fjölda þeirra sem voru reyklausir eftir 12 mánuði. Enginn munur var á milli hópanna á heildarhreyfingu eftir 12 mánuði. Bæði miðlungs erfið hreyfing og ganga minnkaði marktækt hjá báðum hópunum eftir 12 mánuði. Þegar tilraunahópurinn var skoðaður sérstaklega kom í ljós að við 6 mánuði voru áhrif meðferðar þó nokkur en höfðu fjarað eftir 12 mánuði. Ánægja þátttakenda með gagnsemi rannsóknarinnar var mjög mikil í meðferðarhópnum (87-98%) og þó nokkur í samanburðarhópnum (65-80%).

Álykta má að viss ávinningur sé fyrir einstaklinga með væga og miðlungsalvarlega langvinna lungnateppu sem taka þátt í samráði um sjálfsumönnun einstaklinga með langvinna lungnateppu og fjölskyldur þeirra. Mikil ánægja samanburðarhópsins gefur til kynna að þeir einstaklingar hafi haft gagn af athyglinni sem þeir fengu og því að svara heilsutengdum spurningum sem gat hafa gefið þeim tilefni til að efla heilsu sína með einhverjum hætti. Leiða má líkum að því að magn tilraunameðferðarinnar hafi ekki verið nægjanlegt, áhrif hennar höfðu verulega fjarað út við 12 mánaða mælingar. Slíka meðferð þarf að veita yfir lengri tíma svo að einstaklingarnir nái varanlegum tökum á sjúkdómnum og áhrifum hans, ekki síst því að hætta að reykja. Þróa þarf og rannsaka úrræði þar sem þátttakendum er með beinum hætti vísað í meðferð/rannsókn í framhaldi af vernsun á sjúkdómi/öndunarfærasýkingu (komum til heimilislæknis eða lungnalæknis). Á slíkum tímapunkti eru einstaklingar líklegir til að vera móttækilegir til að gera breytingar á daglegu lífi.

Rannsóknarteymi: Helga Jónsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði HÍ, forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna LSH, Alda Gunnarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri lungnadeild LSH, Birgir Hrafnkelsson lektor í tölvunarfræði  HÍ,  Bryndís St. Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur göngudeild lungnasjúklinga LSH, Gunnar Guðmundsson klínískur prófessor og lungnalæknir LSH, Ingibjörg Stefánsdóttir verkefnastjóri Reykleysismiðstöð LSH,  Jón Steinar Jónsson lektor og heilsugæslulæknir Heilsugæslustöð Garðabæjar, Ólöf Ámundadóttir sjúkraþjálfari LSH, Rósa Jónsdóttir klínískur lektor og hjúkrunarfræðingur LSH, Þorbjörg Sóley Ingadóttir klínískur lektor og sérfræðingur í hjúkrun lungnasjúklinga LSH, Þórarinn Gíslason prófessor og yfirlæknir lungnadeildar LSH og Merian Litchfield rannsakandi á Nýja-Sjálandi.

Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Vísindasjóði Landspítalans og Sjóði Odds Ólafssonar. Hún er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítalans, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknasetursins.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica