Reynslulíkön um stofnaaðskilnað - verkefnislok í Rannsóknasjóði

21.3.2013

Verkefnið "reynslulíkön um stofnaaðskilnað" fór af stað sumarið 2008. Markmið þess var að auka skilning á því hvernig vistfræðilegir þættir stuðla að fjölbreytileika í svipfari innan stofna og geta jafnvel orðið hvati að afbrigðamyndun. Til að ná markmiðinu var byggt á fyrri niðurstöðum á fjölbreytileika íslenskra hornsíla og vatna, en hornsíli eru mjög margbreytileg bæði á milli vatna og á milli búsvæða innan vatna.

small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Reynslulíkön um stofnaaðskilnað
Verkefnisstjóri: Guðbjörg Ása Ólafsdótti, Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2008-2010
Fjárhæð styrks: 12,8 millj kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 080227

Sumarið 2008 var veitt í um 40 vötnum eða tjörnum um vestanvert landið. Í hverju vatni var vistfræðilegur breytileiki kortlagður samkvæmt fyrirfram skilgreindri aðferð. Hlutsýni hornsíla frá hverju búsvæði innan vatnsins var mælt og sýni tekin til arfgerðagreininga. Byggt á niðurstöðum úr vettvangskönnun og svipfarsgreiningum var ákveðið að leggja áherslu á tvo vistfræðilega þætti sem virtust ráða miklu um þann svipfarsbreytileika sem var til staðar þ.e. hraunbúsvæði og sníkjudýr. Annars vegar var kannað hvort sníkjudýrasýkingar í mismunandi búsvæðum eru líklegar til að stuðla að aðlögunum eða aðskilnaði afbrigða. Hins vegar voru framkvæmdar tilraunir á félags- og fæðuatferli hornsíla frá hraun og leðju botni.

Almennar niðurstöður verkefnisins sýna að nokkrir afgerandi vistfræðilegir þættir ráða mestu um aðskilnað jafn sem aðlaganir stakra stofna innan vatna. Þar má helst nefna stærð vatns, botngerð og sníkjudýrasýkingar. Nánari athugun á áhrifum sníkjudýra sýndi að sníkjudýraflóran er ólík á milli búsvæða en sýkingar eru sambærilegar innan hraunsvæða. Þá virðast sníkjudýrin hafa orsakað val á ónæmiskerfið þ.e. breytileika í fjölda MHC-arfgerða. Þá er aðskilnaður á MHC-arfgerðum meiri en á hlutlausum erfðamörkum (stuttröðum) á milli búsvæða. Að lokum kom í ljós búsvæðaháð fylgni á milli sníkjudýrasýkinga og erfðabreytileika á MHC. Tilraunir á atferli sýndu að hornsíli af mismunandi búsvæðum hafa ólíkt félags- og fæðuatferli og að þessi breytileiki getur verið mikilvægur til að halda hópum sem stunda fæðunám á ólíkum búsvæðum aðskildum, án erfðaaðskilnaðar. Tekið saman þá sýna þessar niðurstöður að þættir sem eru að fyrstu umhverfisháðir þ.e. sníkjudýrasýkingar og sérhæft fæðunám geta beint og óbeint stuðlað að breytileika innan stofna og jafnvel að  myndun nýrra afbrigða.

 Verkefnið varð tilefni tveggja MSc-ritgerða, ein vísindagrein hefur þegar komið út, handrit er tilbúið til birtingar og það þriðja í vinnslu. Þá hafa niðurstöður verkefnisins verið kynntar með fyrirlestrum og veggspjöldum á fjórum ráðstefnum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica