Christian Wolff: Upplýsing og endurskoðun - verkefnislok í Rannsóknasjóði

2.7.2013

Christian Wolff (1679–1754) var þekktasti heimspekingur Evrópu um miðbik átjándu aldar og hafði meðal annars mikil áhrif á íslenska hugmyndasögu. Um miðja nítjándu öldina var hann flestum gleymdur. Margir helstu straumar upplýsingarinnar eru torskildir ef þeir eru ekki skoðaðir í tengslum við áhrif hans. Markmið verkefnisins var að halda áfram endurskoðun á stöðu Wolffs innan heimspekisögunnar. Fyrri kynningar á heimspeki Wolffs hafi verið um of bundnar við hans eigin framsetningu en lítið kafað eftir hvað liggur að baki skoðunum hans. Þegar slík verk eru borin saman við þau framúrskarandi verk sem hafa verið skrifuð um marga samtímamenn Wolffs þá er ekki að undra þó hann falli í skuggann. Í verkefninu voru grundvallaratriði í heimspeki Wolffs rannsökuð ofan í kjölinn.

 small_Rannsoknasjodur

Heiti verkefnis: Christian Wolff: Upplýsing og endurskoðun
Verkefnisstjóri: Henry Alexander Henrysson
Tegund styrks: Rannsóknarstöðustyrkur
Styrkár: 2008-2011
Fjárhæð styrks: 13,02 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  080649

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: Verufræði Wolffs byggir á meðvitaðri tilraun til að forðast það sem hann taldi vera of frumspekilega nálgun hjá fyrirrennurum sínum. Tilraun hans til að gera grein fyrir svokölluðum „náttúrulegum atómum“ sem eru massalausar orkueindir verður að skoðast í ljósi þekkingar samtímamanna hans á eðli og hegðun efnis. Markhyggjan sem gegnsýrir heimspeki hans hefur einnig allt annars konar stöðu í heimspeki nýaldar en áður hefur verið talið. Siðfræði Wolffs, og frumspekilegar forsendur hennar, er ekki nátengd trúarafstöðu hans og á sér samsvörun í áhugaverðum straumum í siðfræði samtímans.

Vonir eru bundnar við að áframhaldandi rannsóknir á undirliggjandi þráðum hugsunar Wolffs og tengslum þeirra við þróun frumspeki nýaldar myndi að lokum heildstæða mynd af heimspeki hans. Slík mynd hefði sitthvað fram að færa fyrir heimspeki samtímans jafnframt því að vera áhugaverð fyrir alla þá sem hafa raunverulegan áhuga á að kynna sér tímabil upplýsingarinnar og hugmyndastraumana sem saman sköpuðu hana. Í víðara samhengi ættu niðurstöður rannsóknarinnar að verða mikilvægt framlag til rannsókna á heimspeki átjándu aldar. Enn á eftir að smíða afmarkaðri rannsóknarspurningar fyrir áframhaldandi rannsóknir sem munu ekki síst skoða áhrif hugmynda hans á þróun heimspekinnar í Evrópu á fyrri hluta nítjándu aldar.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica