Blueteeth - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

4.12.2020

Lokið er íslenska hluta verkefnisins „BLUETEETH” sem styrkt hefur verið af Tækniþróunarsjóði. BLUETEETH er samstarfsverkefni á vegum Marine Biotech ERA-NET sem Tækniþróunarsjóður tekur þátt í ásamt öðrum evrópskum rannsóknasjóðum. 

 Íslensku samstarfsaðilarnir í BLUETEETH voru vísindamenn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands í Reykjavík og Primex ehf. sem er líftæknifyrirtæki á Siglufirði. Aðrir samstarfsaðilar voru tannlæknadeild Háskólans í Ósló og verkfræðideild háskólans í Aveiro í Portúgal sem var jafnframt í forsvari fyrir verkefnið. Logo tækniþróunarsjóðs

Markmið BLUETEETH er að auka verðgildi aukafurða sjávarfangs með því að þróa sérhæfðar himnur sem byggja á kítósani, fjölsykru sem unnin er úr rækjuskel. Himnurnar eru ætlaðar til notkunar í tannlækningum til að örva beinvöxt og vinna bug á munnholsjúkdómum. Í verkefninu lagði Primex til mismunandi framleiðslulotur af kítósani sem voru sérstaklega efnagreindar og gæðaprófaðar til notkunar í lækningatækjum. Háskóli Íslands þróaði nýja skilvirka aðferð til að smíða afleiður sem mögulegt er að tengja við lífvirk peptíð. Háskóli Íslands tók einnig þátt í að hámarka byggingu kítósanafleiða sem voru notaðar til að framleiða himnurnar. Háskóli Íslands og Primex unnu einnig að þróun síframleiðsluaðferðar fyrir lífvirkar kítósanafleiður.

Rannsóknarvinnu íslensku aðilanna í BLUETEETH samstarfinu er nú lokið en verkefninu lýkur síðar í haust þegar Háskólinn í Aveiro leggur lokahönd á vinnu við rannsóknir á eiginleikum himnanna og Háskólinn í Osló lýkur líffræðilegum prófunum. Á þessu stigi felst afrakstur verkefnisins meðal annars í fjórum birtum greinum og fullgerðum handritum ásamt 11 kynningum á ráðstefnum, auk þess sem tvær ráðstefnur um lækningatæki úr lífefnum voru skipulagðar og haldnar. Fleiri birtingar er að vænta síðar. Primex ehf. mun nýta reynsluna úr þessu verkefni í þróun á lækningatækjum og mun halda áfram samstarfi við Háskóla Íslands. Markmið þess verður m.a. að vinna að nýtingu nýrrar aðferðar, sem byggir á einkaleyfisumsókn, við framleiðslu líffræðilegra virkra kítósanafleiða.

HEITI VERKEFNIS: BLUETEETH

Verkefnisstjóri: Már Másson

Styrkþegi: Háskóli Íslands og Primex ehf.

Tegund styrks: ERA Net

Fjöldi styrkára: 3

Fjárhæð styrks: 35.100.000 ISL kr. alls

 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI

Þetta vefsvæði byggir á Eplica