Cooori – framburðarþjálfun - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

28.6.2018

Cooori býður veflausnir til tungumálanáms sem byggja á nýjustu tækni í gervigreind, talgreiningu og gagnavinnslu.

Cooori er ungt og ört vaxandi íslenskt sprotafyrirtæki, sem stofnað var í lok árs 2010. Cooori býður veflausnir til tungumálanáms sem byggja á nýjustu tækni í gervigreind, talgreiningu og gagnavinnslu. Lausnir sem geta valdið straumhvörfum í skilvirkni tungumálanáms í heiminum og byggja á flókinni tækni sem er í alþjóðlegu einkaleyfisferli og á sér ekki hliðstæðu.  Félagið sækir inn á afar stóran alþjóðlegan markað en talið er að tungumálamarkaðurinn á heimsvísu velti um 100 milljörðum Bandaríkjadala á ári.  Enn fremur er spáð að fjárfestingar í tækni til stuðnings kennslu og náms (EdTech) muni vaxa hraðast innan tæknigeirans á næstu 10 árum.

Heiti verkefnis: Cooori – framburðarþjálfun
Verkefnisstjóri: Arnar Þór Jensson, Cooori ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 28 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110385

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Cooori setti frumútgáfu sína í loftið í maí 2012, japönsku fyrir enskumælandi.  Félagið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir vefinn www.cooori.com og í mars 2014 var síðan fyrsta útgáfa kerfisins fullbúin og um leið gefin út enska fyrir japönskumælandi.  Megin sókn félagsins er á fyrirtækjamarkað.  Japansmarkaður er gríðarstór en talið er að um 20 milljónir Japana séu að læra ensku. Lausnir Cooori eru í notkun hjá stórum og þekktum japönskum fyrirtækjum og nýtist við starfsmannaþjálfun.  Notkun rannsóknarniðurstaðna er mjög afgerandi í samanburði við fyrri lausnir, sem hafa verið í notkun og verða komandi ár afar spennandi.

Lausnir Cooori eru fullkomlega einstaklingsmiðaðar og eru öll svör og árangur notandans skráð í rauntíma. Cooori-kerfið metur stöðu orðs/viðfangs í minni og skipuleggur áminningar og verkefni út frá því.  Allt val á stuðningsefni er miðað að kunnáttu nemandans hverju sinni.  Einstakir möguleikar eru á að fylgjast með námsframvindu og þróun nemandans, þar sem aldrei fyrr hefur kennari haft aðgang að eins ýtarlegum upplýsingum.  Því er unnt að einblína á þá þætti þar sem hver nemandi þarfnast aðstoðar.

Styrkur Tækniþróunar sjóðs hefur verið félaginu afar mikilvægur á undaförnum árum.  Félagið hefur getað stundað nauðsynlegar rannsóknir og frumþróun, sem hefur styrkt einkaleyfisumsóknina auk þess að hraða framþróun, gera þjónustur félagsins fjölbreyttari, auka samkeppnishæfni og styrkja stöðu á markaði.  Að sögn Arnars Þórs Jenssonar stofnanda  Cooori er félagið á fleygiferð og mörg tækifæri til frekari aukningar á þjónustuframboði. Má þar meðal annars nefna: notkun gervigreindar í vali á kennsluefni fyrir hvern nemanda og tímasetningar á verkefnum, sem miða að því að hámarka skilvirkni fyrir hvern nemanda fyrir sig, tölfræði, notendahegðun og kennsluflæði, stjórnborð kennara/notanda, stjórnborð námsskipulags og kennsluflæðis og stjórnborð orðagrunna. Nýting þessara upplýsinga getur valdið straumhvörfum í tungumálanámi og í raun gjörbylt þeirri aðferðafræði sem notuð er við kennslu í dag.

Frekari upplýsingar er að finna á www.cooori.com eða hjá Arnari Þór Jenssyni á netfanginu arnar@cooori.com.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica