Fiskvinnsla – Næsta kynslóð - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

17.1.2023

Vélfag hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði í júní 2021 til að þróa nýstárlega fiskvinnsluvél fyrir hvítfiskiðnað sem hlotið hefur nafnið UNO. 

Í dag eru flest vinnsluskref fyrir slægðan hvítfísk, þ.e. flokkun, hausun, flökun, roðfletting og beingarðs-skurður, framkvæmd í vélum. Vélarnar eru tengdar saman með færiböndum og þarf í mörgum tilfellum starfsfólk til að sjá um innmötun í vélarnar. Þessi uppsetning kallar á allt að 5 vélar og tugi metra af færiböndum með viðeigandi viðhaldi, vatns- og orkunotkun svo ekki sé minnst á þörf fyrir starfsfólk og vinnslurými. Markmið verkefnisins var að þróa nýstárlega fiskvinnsluvél þar sem ein vél framkvæmir öll vinnsluskrefin án þess að mannshöndin komi þar nálægt. Nýnæmið er mikið í þróuninni og er óhætt að segja að vélin sé einstök og taki vinnslu á hvítfiski inn í aðra vídd. Stærsta byltingin í UNO er beinaskurðurinn. Í dag er hann framkvæmdur á roðlausum flökum sem eru búin að fara í gegnum 4 vélar, flokkara, hausara, flökunarvél og roðdráttarvél. Í UNO er þetta framkvæmt eftir flokkun og hausun, þ.e. í sama mund og fiskurinn er flakaður og roðflettur. 

Logo tækniþróunarsjóðsÞessi breyting í vinnslu gerir það að verkum að nýting og gæði aukast til muna þar sem hráefnið er stífara og heldur betur á móti vatnsgeislanum. Þetta gerir það að verkum að skurðurinn verður nákvæmari og nýtingin á hráefninu betri. Tæknin við beingarðs-skurðinn er í einkaleyfisferli. Fyrir utan aukna nýtingu á hráefni, eykur UNO vélin einnig gæði afurða þar sem vinnsluferlinn styttist og handfjötlun á hráefninu er minni þar sem um eina vél er að ræða í stað fimm. Einnig þarf UNO vélin mun minna viðhald og þrif samanborið við fimm vélar tengdar saman með færiböndum. UNO vélin dregur verulega úr vatns- og rafmagnsnotkun og mun kerfjast minna vinnslurýmis og færra starfsfólks. Tekið saman má ætla að vinnslulínan styttist um allt að 2/3 með tilkomu UNO vélarinnar og að vinnslutíminn styttist um 16 falt eða úr u.þ.b. 480 s í 30 sek. UNO vélin hefur farið í gegnum einfaldar vinnsluprófanir og mun fara í álagsprófanir á næstu misserum. UNO vélin mun verða tilbúin til afhendingar um mitt ár 2023 og hafa nú þegar verið pöntuð nokkur eintök. Frekari upplýsingar og fréttir af UNO vélinni er hægt að nálgast á vefsíðu Vélfags: www.velfag.com

HEITI VERKEFNIS: Fiskvinnsla – Næsta kynslóð

Verkefnisstjóri: Hólmfríður Sveinsdóttir

Styrkþegi: Vélfag

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 1

Fjárhæð styrks: 25.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI

Þetta vefsvæði byggir á Eplica