Fjallasnjór - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.7.2018

Verkefnið Fjallasnjór skilar áreiðanlegri mælum, undirstöðum sem standast verstu aðstæður og úrvinnslu gagna, sem nýtist beint í snjóflóðavöktun. Þannig stuðlar verkefnið að auknu öryggi íbúa á snjóflóðahættusvæðum, vegfarenda á vegum þar sem snjóflóðahætta getur skapast, og fólks sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi.

Fjallasnjór er heiti verkefnis sem nýsköpunarfyrirtækið POLS Engineering á Ísafirði hefur ásamt Veðurstofu Íslands unnið að undanfarin þrjú ár með styrk frá Tækniþróunarsjóði. POLS hefur frá árinu 2004 þróað sjálfvirkan snjómæli, SM4, sem mælir hitasnið og út frá því er reiknuð snjódýpt í rauntíma.

Veðurstofa Íslands vaktar snjóflóðahættu í byggð og gefur einnig út mat á snjóflóðaaðstæðum fyrir stærri svæði. Fyrir snjóflóðavöktun er ómetanlegt að fá upplýsingar um snjóalög í rauntíma beint úr eða nálægt mögulegum upptakasvæðum snjóflóða. Í verkefninu unnu Veðurstofan og POLS saman að því að þróa SM4-mælinn áfram með það að markmiði að hann nýtist sem best við snjóflóðavöktun.

Innan verkefnisins voru þróaðar undirstöður fyrir mælinn sem eru hannaðar þannig að hægt sé að bera þær upp í fjall og setja upp í eða við upptakasvæði snjóflóða. Rafbúnaður mælisins var þróaður áfram og skipt var um kynslóð af grunnbúnaði í þeim tilgangi að gera mælinn áreiðanlegri og öflugari, en einnig til þess að bæta við möguleikum á að tengja vindmæla við hann og eiga möguleika á að hafa gervitunglatengingu í stað GSM-tengingar, þar sem símasamband er slæmt. Einnig var unnið með gögnin úr mælinum og þróaðar leiðir til að setja þau fram þannig að þau nýtist sem best við snjóflóðavöktun.  Búið er að hanna leið til þess að fá sjálfvirkar aðvaranir frá mælinum sendar með SMS eða tölvupósti. Hver notandi getur skilgreint mismunandi þröskuldsgildi á t.d. orkustöðu eða snjódýptaraukningu.

Heiti verkefnis: Fjallasnjór
Verkefnisstjóri: Harpa Grímsdóttir, POLS Engineering
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 19,652 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 142388

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Niðurstöður verkefnisins nýtast beint í snjóflóðavöktun á Íslandi. Til að snjóflóðavöktun verði sem best er mikilvægt að hafa sem mest af upplýsingum til að byggja ákvarðanir á. Eitt af því allra mikilvægasta eru upplýsingar um snjóalög í rauntíma úr fjallshlíðum þar sem upptakasvæði snjóflóða eru. Fjallasnjór skilar áreiðanlegri mælum, undirstöðum sem standast verstu aðstæður og úrvinnslu gagna sem nýtist beint í snjóflóðavöktun. Þannig stuðlar verkefnið að auknu öryggi íbúa á snjóflóðahættusvæðum, vegfarenda á vegum þar sem snjóflóðahætta getur skapast, og fólks sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi.

SM4-mælarnir hafa verið seldir til Noregs þar sem þeir hafa reynst vel við vöktun snjóflóðahættu á vegum. Vonir standa til þess að hægt verði að markaðssetja þá á fleiri svæðum þar sem snjóflóðahætta er vöktuð, t.d. fyrir skíðasvæði í Ölpunum og í N-Ameríku.

Afrakstur:

  • Gormastikur - undirstöður fyrir SM4-snjómæli sem þola að standa í eða við upptakasvæði snjóflóða
  • SM4-snjómælir með endurbættum rafbúnaði. Hægt að tengja við vindmæla og gervitunglamódem
  • Ný gerð af vindmæli sem hefur verið prófaður til fjalla einn vetur, og þarf að prófa áfram í 1-3 vetur.
  • Viðbót við reiknireglu sem reiknar snjódýpt út frá hitagögnum úr SM4
  • Línurit sem sýna köntunarstuðul og dýpi mögulegra veika laga í snjónum í rauntíma
  • Sjálfvirkar aðvaranir í formi SMS eða tölvupósts við skilgreind þröskuldsgildi

Greinar og skýrslur:

  • Utilisation of the SM4 automatic snowpack sensor for avalanche forecasting. Grein í ráðstefnuriti International Snow Science Workshop (ISSW) 2016.
  • Reikniregla og uppsafnaður hitastigull. Verklokaskýrsla. VÍ 2017.
  • Undirstöður fyrir SM4 snjómæli. Verklokaskýrsla. VÍ 2017.
  • Uppfærsla rafbúnaðar fyrir SM4 snjómælinn, gervitunglatenging og vindmælar. Verklokaskýrsla VÍ 2017.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica