Jurtalyf til Norðurlanda - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

13.10.2017

Florealis gerir samning við stærstu apótekskeðjur Norðurlanda. Samningurinn er afrakstur vinnu síðastliðins árs sem m.a. var unnin með markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði.

Florealis ehf. hefur náð samkomulagi við tvær af stærstu apótekskeðjum Norðurlanda, Apoteket AB og Apoteksgruppen, um að taka vörulínu félagsins til sölu í febrúar á næsta ári. Samningurinn við Apoteket nær til að byrja með til netapóteks keðjunnar en netsala á lyfjum og lækningavörum fer hratt vaxandi í Svíþjóð. Í framhaldinu er gert ráð fyrir að vörur Florealis verði seldar í öllum apótekum keðjunnar sem eru um 360 talsins. Apoteksgruppen rekur tæplega 180 apótek víða um Svíþjóð.

Heiti verkefnis: Jurtalyf til Norðurlanda
Verkefnisstjóri: Karl Guðmundsson, Florealis ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2016
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 164164061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Samningurinn er afrakstur vinnu síðastliðins árs sem m.a. var unnin með markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði. “Það er mjög strembið og flókið ferli að fá vörur okkar samþykktar inn í sænsk apótek. Það er því afar ánægjulegt að ljúka samningum og taka fyrstu skrefin inn á Norðurlandamarkað”, segir Karl Guðmundsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Florealis. “Sænsk apótek gera miklar gæðakröfur til þeirra lyfja og lækningavara sem þau bjóða sínum viðskiptavinum og er þetta því mikilvæg viðurkenning á okkar vörulínu. Í framhaldinu stefnum við á að markaðssetja vörur okkar á hinum Norðurlöndunum”.

Fyrstu vörur Florealis fást nú í íslenskum apótekum en um er að ræða lyf og lækningavörur sem innihalda virka jurtaútdrætti. Fyrstu lækningavörurnar eru ætlaðar konum með óþægindi á kynfærasvæði en einnig fást bólukrem og frunsukrem. Síðar í haust kemur fyrsta jurtalyfið sem fær markaðsleyfi á Íslandi en það er ætlað konum með vægar endurteknar þvagfærasýkingar. Í lyfinu er jurtaútdráttur úr sortulyngi. Fjölmargar fleiri vörur munu bætast við vörulínu Florealis á næstu mánuðum.

Um Florealis
Florealis ehf. (www.florealis.com) er íslenskt lyfjafyrirtæki sem þróar og markaðssetur fjölbreytt úrval jurtalyfja og lækningavara fyrir fólk með væga algenga sjúkdóma. Vörurnar byggja á vísindalegum grunni og hafa viðurkennda virkni við ákveðnum sjúkdómum.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica