Markaðssetning PayAnalytics erlendis - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

6.10.2020

PayAnalytics er hugbúnaðarlausn sem greinir laun hjá um 60 fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi þar sem samtals starfa um 40 þúsund manns, eða um 20% af starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði.

Logo tækniþróunarsjóðs

Í vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs árið 2019 fékk PayAnalytics styrk til eins árs til markaðssetningar erlendis. Í lok styrktarársins var PayAnalytics komið með viðskiptavini í þremur löndum og hugbúnaðarlausnin var notuð til að gera jafnlaunagreiningar fyrir hátt í 200 þúsund manns. PayAnalytics markar sér sérstöðu með því að færa ákvörðunartól í hendur mannauðsstjórnenda sem ekki bara mælir launamun, heldur leggur til hvaða starfsmenn skuli hækka og um hve mikið til að minnka muninn, greinir kostnað við mismunandi aðferðir og gerir stjórnendum kleift að nota rauntímagögn til að fylgjast með stöðunni innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar.

Hluti af markaðsstyrknum var nýttur í markaðsgreiningu þar sem meðal annars var haft samband við fjölda fyrirtækja og stofnana í mismunandi löndum til að átta sig á því hvaða verkefni á sviði jafnlaunamála væru mest aðkallandi og erfiðast að leysa. Markaðsgreining rennir stoðum undir það að lausn PayAnalytics sé í fremsta flokki á heimsvísu. Að auki er ljóst að framþróun PayAnalytics á erindi á erlenda markaði. Þannig verður í næstu útgáfu PayAnalytics hægt að gera jafnlaunagreiningar fyrir fleiri kyn en karla og konur og jafnframt mun lausnin hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að loka öðrum lýðfræðilegum launabilum.

Sjá nánari upplýsingar á: www.payanalytics.is

Heiti verkefnis:  Markaðssetning PayAnalytics erlendis
Verkefnisstjóri: Sigurjón Pálsson
Styrkþegi: PayAnalytics ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Fjöldi styrkára: 1
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica