Memaxi - samskiptakerfi fyrir langveika – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

15.6.2017

Memaxi er dagatals- og samskiptakerfi fyrir þá sem njóta langtímastuðnings og þjónustu vegna veikinda eða fötlunar og fyrir þá sem veita þjónustuna, bæði fjölskyldu og fagfólk. Memaxi HOME 2.0 er nú fáanlegt fyrir snjallsíma og spjaldtölvur og er aðgengilegt úr helstu vöfrum.  

Sjálfstæð búseta er ósk flestra sem þurfa á aðstoð og þjónustu að halda. Með því að auka hlut velferðartækni í þjónustunni, gera hana skilvirkari fyrir fagfólk og auðvelda aðstandendum að vera virkari þátttakendur má stuðla að vellíðan, auknum lífsgæðum og hagkvæmni í rekstri því mun hagkvæmara er að veita þjónustu inni á heimili heldur en á stofnun eða spítala.

Heiti verkefnis: Memaxi – samskiptakerfi fyrir langveika og umönnunaraðila þeirra
Verkefnisstjóri: Ingunn Ingimars, Memaxi ehf
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 142292061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Með Memaxi fær þjónustuþeginn spjaldtölvu með kerfinu sem sýnir m.a. klukku, dagsetningu, dagatal, minnisatriði og myndir. Þessum upplýsingum og efni er að mestu stjórnað af fjölskyldu og fagfólki sem notar til þess snjallsíma og önnur nettengd tæki. Boðið er upp á myndsamtöl í kerfinu sem hafa gefið mjög góða raun og segja notendur kerfisins að það rjúfi félagslega einangrun, geri alla í stuðningsnetinu virkari þátttakendur og að verkaskipting verði meiri. Þjónustuþeginn verður öruggari og fylgist betur með dagskránni sinni.

Memaxi ehf hlaut þriggja ára verkefnisstyrk Tækniþróunarsjóðs Rannís vorið 2014 sem var gríðarleg lyftistöng fyrir fyrirtækið og viðurkenning á framtíðarsýn Memaxi. Styrkurinn var nýttur til að endurhanna og endurskrifa kerfið fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Afurð verkefnisins er Memaxi HOME sem hægt er að hlaða niður sem smáforriti (e. app) í Google Play Store og Apple App Store auk þess sem það er aðgengilegt á vefsíðunni https://go.memaxi.com. Kerfið er hýst sem skýjalausn og er aðgengilegt öllum í 30 daga til reynslu. Að reynslutímanum liðnum geta notendur valið á milli mánaðaráskrifta eða notast við einfaldaða mynd af kerfinu án endurgjalds.

Memaxi ehf er nýsköpunarfyrirtæki í velferðartækni. Þeir sem standa að fyrirtækinu hafa allir mikla reynslu af umönnun ástvina og byggir hugmyndin á þeim hindrunum og áskorunum sem slík umönnun hefur í för með sér. Næstu skref Memaxi eru markaðssetning og sala kerfisins til einstaklinga og stofnana ásamt áframhaldandi þróun.

Nánari upplýsingar er að finna á www.memaxi.is.

Afrakstur verkefnisins

Memaxi HOME í Google Play Store
Memaxi HOME í Apple App Store
https://go.memaxi.com
http://www.memaxi.com









Þetta vefsvæði byggir á Eplica