Metanól til orkugeymslu - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra.

24.11.2017

Í verksmiðju Carbon Recycling International í Svartsengi er koltvísýringur frá jarðvarmavirkjun HS Orku nýttur til framleiðslu á grænu metanóli sem svo er selt sem íblöndunarefni í eldsneyti eða hráefni til efnaiðnaðar.

Carbon Recycling International (CRI) hefur verið brautryðjandi á heimsvísu á sviði hagnýtingar koltvísýrings frá árinu 2012, þegar metanól-verksmiðja þess í Svartsengi var tekin í notkun. Þar er koltvísýringur frá jarðvarmavirkjun HS Orku nýttur til framleiðslu á grænu metanóli sem svo er selt sem íblöndunarefni í eldsneyti eða hráefni til efnaiðnaðar. Stærstu viðskiptavinir CRI eru framleiðendur á lífdísli og vatnshreinsistöðvar í Svíþjóð en notkun á grænu metanóli dregur úr losun á koltvísýringi um 90% samanborið við jarðefnaeldsneyti. Þá hefur CRI þróað tæknilausn sína til notkunar í annarskonar aðstæðum og selur þjónustu til uppsetningar, byggingar, innleiðingar og starfsemi álíka verksmiðja til erlendra aðila.

Í Júlí 2016 hlaut CRI styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís upp á 10.000.000 kr. með það að markmiði að auka umsvif fyrirtækisins á alþjóðavettvangi og búa þannig í haginn fyrir frekari útbreiðslu tækni þess. Áhersla var á lokun samninga um byggingu verksmiðju í Kína og Þýskalandi og skyldu þær hafa framleiðslugetu upp á 50.000 tonn af metanóli. Markaðssókn CRI á erlenda markaði var tímabær við upphaf verkefnisins í ljósi þess rannsóknar-og þróunarstarfs sem CRI hafði staðið að undanfarin ár. Sérstaða fyrirtækisins og tækni þess, sérþekking starfsfólks á alþjóðavísu auk strauma á alþjóðavettvangi sem veita starfi í þágu loftslagsverndar aukið vægi þóttu skapa tækifæri til sóknar á erlenda markaði þá þegar.

Heiti verkefnis: Metanól til orkugeymslu
Verkefnisstjóri: Ómar Freyr Sigurbjörnsson, CRI ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2016
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 164122061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Fyrirtækið hefur unnið í samstarfi við viðskiptafélaga sína að framgöngu tækni sinnar í Kína og Evrópu. Það hefur borið árangur en í september síðastliðnum stofnaði CRI formlega sameiginlegt dótturfyrirtæki í Kína í samstarfi við þarlenda samstarfsaðila – Geely Holdings og Zixin Corporation. Mun dótturfyrirtækið - sem hlaut nafnið CRI Ji Xin - sinna sölu-og markaðsstarfi CRI í Kína fyrir uppbyggingu á efnaverksmiðjum sem nýta áðurnefnda tækni CRI.

Við þetta tilefni sagði forstjóri CRI, Sindri Sindrason: “Stofnun CRI Zi Xin er mikilvægur áfangi fyrir frekari vöxt fyrirtækisins. Með aukinni samvinnu milli íslensks hugvits og kínversks iðnaðar stígum við stórt skref í átt að grænni framtíð í Kína og annarsstaðar í heiminum.” Hefur starfsemi CRI á erlendum vettvangi aukist verulega með framgöngu verkefnis þess sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði og styður við frekari vöxt fyrirtækisins á komandi árum.

Afrakstur

  1. Markaðsefni og kortlagning helstu markaðssvæða liggur fyrir hjá CRI
  2. Verkefnalína hefur stækkað og ný verkefni eru í undirbúningi
  3. Hugverkaréttur á helstu markaðssvæðum liggur fyrir
  4. Dótturfélag hefur verið stofnað í Kína um sölu og markaðssetningu á ETL-tækninni

Þetta vefsvæði byggir á Eplica