Mysa í vín - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóa

12.2.2021

Mysa í vín er samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar ehf., Matís ohf. og Háskólans á Akureyri. Markmið verkefnisins var að finna og besta leið til að nýta og umbreyta mjólkursykurvökva (laktósa) úr mysu í etanól. 

Prófaðir voru alls 22 mismunandi stofnar af gersveppum og bakteríum sem komu úr örverusafni MATÍS (ISCAR) og einnig þekktir sérhæfðir stofnar úr erlendum stofnasöfnum til að framkvæma þessa umbreytingu. Niðurstöður sýndu að langvirkasti gerillinni er Kluiveromyces marxianus og hefur mikla virkni bæði í hlutlausu umhverfi ostamysunnar og súru umhverfi skyrmysunnar. Gerillinn umbreytir laktósanum alveg í etanól og hefur þessi öflugi stofn fengið nafnið Kluiveromyces marxianus Islandicus.

Eimingartilraunir með gerjaða vökva á stórum skala voru gerðar í samstarfi við Eimverk ehf. Með þrepaeimingu í kopareimingartækjum upp í örlítið lægri alkólhólprósentu en spiritus fortis tókst að halda í bragðeinkenni lögunarinnar. Örlítill ostakökukemur var af eimuðum vökva úr ostamysu og skyrkeimur af eimaða skyrmysuvökvanum.

Alls falla til um 60 milljónir lítra af mysu í osta- og skyrframleiðslu á Íslandi á ári. Þetta verkefni sýnir að hægt er að umbreyta öllum laktósanum sem er í mysunni í etanól sem aftur leiðir til mun minna umhverfisálags, þar sem engin lífefni verða afgangs í framleiðslunni, heldur eingöngu vatn. Vænta má mikilla verðmæta með framleiðslu á etanólinu þegar búið verður að koma honum í íslenskar áfengisvörur á markaði sem eru nú framleiddar með innfluttum spíra. Þannig geta vörurnar verið vottaðar með íslensku hráefni á öllu stigum. Einnig er gert ráð fyrir að koma með nýja vörulínu á markað með mysueinkennum. Að auki gefur þetta vonir um að hægt verði að bjóða erlendum samstarfsaðilum í skyrframleiðslu upp á heildarlausn með því að framleiða etanól úr hliðarafurð skyrframleiðslunnar til að auka virði framleiðslunnar og með því einnig að draga úr umhverfisáhrifum. Umframmagn etanóls sem ekki nýtist í vörur má nota sem eldsneyti.

HEITI VERKEFNIS: Mysa í vín

Verkefnisstjóri: Björn S. Gunnarsson

Styrkþegi: Mjólkursamsalan ehf.

Tegund styrks: Verkefnisstyrkur

Fjöldi styrkára: 3

Fjárhæð styrks: 42.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica