NeckSmart til greiningar og þjálfunar á hálssköðum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.7.2023

Tækniþróunarsjóður hefur gert sprotafyrirtækinu NeckCare kleift að klára vöruna NeckSmart til að hefja sölu á Bandaríkjamarkaði. NeckSmart er hugbúnaður sem styðst við hreyfirskynjara og metur ástand einstaklinga sem hafa orðið fyrir hálsáverkum, t.d. eftir aftanákeyrslu og/eða höfuðhögg.

Kerfið mælir þrjá þætti hreyfinga höfuðsins: Innskyn (getan til að staðsetja höfuðið í rýminu), hreyfistjórnun (getan til að stýra fínhreyfingum höfuðsins) og hreyfiútslag (hvað hægt sé að hreyfa höfuðið mikið í hverja stefnu) og er fyrsta sinnar tegundar í heiminum. NeckCare hefur tryggt einkaleyfi á vörunni í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada sem mun reynast ómetanlegt á komandi árum.

NeckSmart kerfið er afrakstur áralangs vísindastarfs Dr. Eyþórs Kristjánssonar sem hefur sérhæft sig í meðferð á einstaklingum sem glíma við hálsskaða með góðum árangri. NeckSmart samanstendur af hreyfiskynjara sem komið er fyrir á höfðinu og tengist í gegnum Bluetooth við tölvu. Prófin eru framkvæmd í NeckCare veflausninni og sjálfvirkar skýrslur koma upp eftir að prófunum lýkur. Hvert próf tekur aðeins nokkrar mínútur og gefur meðferðaraðila mikilvægar upplýsingar um ástand sjúklingsins sem nýtist í greiningu, meðferð og endurhæfingu. NeckSmart inniheldur einnig fjarþjálfun, þar sem sjúklingar geta framkvæmt æfingar heima við í veflausninni. Sjúkraþjálfarinn getur stýrt æfingagerðinni, erfiðleikastuðlinum og ákefðinni. Þannig getur heimaþjálfunin orðið mun markvissari og stuðlað að skjótari bata hjá sjúklingunum

Logo tækniþróunarsjóðs

NeckCare er framsækið nýsköpunarfyrirtæki á sviði lækningatækja og þar vinnur fjölbreytt teymi sjúkraþjálfara, verkfræðinga, tölvunarfræðinga og sérfræðinga í rekstri slíkra fyrirtækja. NeckCare opnaði skrifstofu í Norður Karólínu síðsta vor þaðan sem sókn inn á Bandaríkjamarkað verður stýrt. Kerfið hefur verið notað af sjúkraþjálfurum í Háls- og höfuðverkjamiðstöðinni sem opnaði síðasta vetur og hefur nú þegar hjálpað fjölda sjúklinga. Þá er NeckCare einnig í góðu samstarfi við Sjúkraþjálfun Íslands, Afl og Hæfi, þar sem kerfið er nýtt við mælingar á endurhæfingu á skjólstæðingum þeirra. Stuðningur Tækniþróunarsjóðs við verkefnið hefur verið ómetanlegur og hefur flýtt þróun kerfisins til muna. Markmið NeckCare er að hjálpa meðferðaraðilum að greina stoðkerfisvanda í hálsi og stuðla að betri og árangursríkari meðferð fyrir sjúklinga. Með tilbúna vöru í farteskinu, er sókn fyrirtækisins á einn stærsta heilbrigðistæknimarkað veraldar, Bandaríkin framundan.

HEITI VERKEFNIS: NeckSmart til greiningar og þjálfunar á hálssköðum

Verkefnisstjóri: Magnús Kjartan Gíslason

Styrkþegi: NeckCare

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 50.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI    









Þetta vefsvæði byggir á Eplica