Alþjóðleg markaðsþróun – Framrás SagaPro á erlendum mörkuðum

Verkefni lokið

20.6.2014

Heilbrigðisyfirvöld í Kanada viðurkenna virkni SagaPro.

Nýsköpunarfyrirtækið SagaMedica hefur lokið skráningu á SagaPro í Kanada. Heilbrigðisyfirvöld í Kanada gáfu út svokallað NPN númer (e. Natural Product Number) fyrir SagaPro í mars síðastliðinn. 

Heiti verkefnis: Alþjóðleg markaðsþróun – Framrás SagaPro á erlendum mörkuðum
Verkefnisstjóri: Sara Elísabet Svansdóttir, SagaMedica – Heilsujurtir ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2013
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 131866-0611
 


VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI

Þetta hefur gríðarlega stóra merkingu fyrir starfsemi SagaMedica því nú hefur fyrirtækið heimild til að markaðssetja SagaPro við tíðum þvaglátum í Kanada.

Með þessari skráningu er stórum áfanga náð en unnið hefur verið að skráningu í Kanada frá ársbyrjun 2010.

Niðurstöður klínísku rannsóknarinnar á SagaPro, sem birtar voru sumarið 2012 skiptu sköpum í skráningarferlinu. 

Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri SagaMedica, segir þetta afar mikilvægan áfanga þar sem nú sé virkni vörunnar viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum og mögulegt að markaðssetja SagaPro af alvöru í Kanada.

  • SagaPro er eina náttúruvaran í heiminum sem unnin er úr ætihvönn og þróuð hefur verið við tíðum þvaglátum
  • SagaPro fór á markað í Bandaríkjunum í mars 2013 og hefur salan þar farið fram úr öllum væntingum
  • Aðrar vörur SagaMedica eru Angelica við kvefi og kvíða, SagaMemo fyrir gott minni og Voxis hálstöflur fyrir sáran háls
  • Í október var birt grein í erlendu vísindatímariti um niðurstöður rannsóknar á SagaMemo sem unnin var af Steinþóri Sigurðssyni, rannsóknarstjóra SagaMedica. Niðurstöður sýndu að SagaMemo bætir minni músa.

Sérstaða SagaPro

SagaPro er vinsælasta vara SagaMedica og hefur þá miklu sérstöðu að vera eina varan úr hvönn sem seld er við þvaglátavandamálum.  Í dag er SagaPro til sölu á Íslandi, Bandaríkjunum og Kanada. Netverslun SagaMedica, sem afgreiðir vörur um allan heim, hefur vaxið hratt á undanförnum misserum.

Árið 2012 lauk SagaMedica við klíníska rannsókn á SagaPro og var það í fyrsta skipti sem íslensk náttúruvara gekkst undir slíkt. Niðurstöðurnar voru mjög jákvæðar en rannsóknin sýndi að í undirhópum jók SagaPro blöðrurýmd og minnkaði þvaglátatíðni. Rannsóknin jók einnig skilning á vörunni til muna og útskýrði meðal annars hvers vegna varan virkar bæði fyrir konur og karla, en einnig af hverju hún hefur reynst einstaklingum vel sem pissa undir á nóttunni. Nánari niðurstöður má finna í ritrýndu greininni: [S Sigurdsson, G Geirsson, H Gudmundsdottir, P Egilsdottir, S Gudbjarnason. A parallel, randomized, doubleblind, placebo-controlled study to investigate the effect of SagaPro on nocturia in men. Scandinavian Journal of Urology and Nephrology. 1-7, 2012]

SagaMedica

SagaMedica ehf. framleiðir náttúruvörur úr hvönn og markaðssetur þær á erlendum mörkuðum, ásamt því að hafa náð góðum árangri innanlands. Fyrirtækið á sér langa sögu sem hófst með rannsóknum Dr. Sigmundar Guðbjarnasonar á íslenskum lækningajurtum fyrir um tuttugu árum.

Í dag býður SagaMedica upp á margar áhugaverðar vörur úr hvönn og fer SagaPro, við tíðum þvaglátum, þar fremst í flokki enda hefur varan verið rannsökuð meira en flestar aðrar íslenskar náttúruvörur.

Nánari upplýsingar veita:

Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri SagaMedica, sími 899-4422 
Sara Elísabet Svansdóttir, markaðsstjóri SagaMedica, sími 896-8501

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  • Product Licence Canada SagaPro NPN 80046093
  • Pantanir úr bókhaldskerfi frá Europharma í Bandaríkjunum og frá Elexir Pharma í Svíþjóð
  • Samskipti við Hahn & Hahn Inc. lögfræðistofu í S-Afríku

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica