Nanóagnir og ný lyf við gláku og sjónhimnubjúg

Verkefni lokið - fréttatilkynning verkefnisstjóra

18.8.2014

Oculis ehf. hefur þróað lyfjaferjur sem gera okkur kleift að gefa lyf til bakhluta augans með einföldum augndropum.

Oculis ehf. er sprotafyrirtæki sem byggir á rannsóknum sem unnar hafa verið í samstarfi lyfjafræðideildar Háskóla Íslands og augndeildar LSH.

Fyrirtækið var stofnað fyrir 11 árum en rannsóknir félagsins ná þó lengra aftur í tímann.

Heiti verkefnis: Nanóagnir og ný lyf við gláku og sjónhimnubjúg
Verkefnisstjóri: Guðrún Marta Ásgrímsdóttir, Oculis ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 26 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110364-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Oculis ehf. hefur þróað lyfjaferjur sem gera okkur kleift að gefa lyf til bakhluta augans með einföldum augndropum. Þetta er nýjung sem aðrir hafa ekki getað sýnt fram á og er varin með einkaleyfi. Þetta er mikilvægt skref í þróun augnlyfja auk þess að vera mikil hagræðing bæði fyrir sjúklinga með sjúkdóma í augnbotnum og heilbrigðiskerfi sem standa straum af kostnaði við innsprautun lyfja í augu.

Rannsóknir Oculis hafa farið fram á rannsóknarstofu lyfjafræðideildar H.Í., hjá Matís ohf. og ArcticMass. Klínískar rannsóknir hafa farið fram á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, í Japan, Tel Aviv og víðar. Augndroparnir eru framleiddir hjá GMP vottuðu lyfjaframleiðslufyrirtæki í Austurríki.

Gerðar hafa verið klínískar rannsóknir á 2 tegundum augnlyfja, dorzolamide sem er glákulyf og dexamethasone sem er steri sem dregur úr bólgum í augum. Um er að ræða fasa II klínískar rannsóknir þar sem lyfið er borið saman við hefðbundna lyfjagjöf (þar sem stera er sprautað inn í augað), auk rannsókna á lyfjahraðafræði. Auk þessa hefur Oculis ehf. framkvæmt dýratilraunir.

Næstu skref hjá Oculis ehf. er að framkvæma fasa III skráningarrannsóknir. Félagið hyggst skrá og markaðssetja lyfið í samstarfi við stærri lyfjafyrirtæki.

Birtar greinar.

  • Tanito og fl. 2011. Investigative Ophthalmoloyg & Visual Science.
  • Guðmundsdóttir og fl. 2013. Journal of Ocular Pharmacology and Therapeutics.
  • Jóhannesson og fl. 2014. Acta Ophthalmologica.
  • Jóhannesson og fl. 2014. Journal of Ocular Pharmacology and Therapeutics.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica