Snarpur - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

5.11.2014

Qodiag hefur þróað hugbúnað sem auðveldar klíníska upplýsingasöfnun í heilbrigðisþjónustu. 

Fyrir hendi eru veruleg viðskiptatækifæri fyrir heilbrigðistengdar hugbúnaðarlausnir á markaði sem er í örum vexti á heimsvísu. 

Heiti verkefnis: Snarpur
Verkefnisstjóri: Orri Gautur Pálsson, Qodiag ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 120938-061
 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI. 

Þjónustan yrði seld á Íslandi og erlendis og gert var ráð fyrir að ná 2% markaðshlutdeild á næstu 5 árum. Áætlað var að hagnaður árið 2019 nemi 220 m.kr. og að viðskiptavinir yrðu 4000 talsins. Hugbúnaður Qodiag eykur afköst í starfi sérfræðinga innan heilbrigðisgeirans sem taka skjólstæðinga til meðferðar, s.s. lækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa.

Hugbúnaðurinn gjörbreytir núverandi vinnulagi við öflun og úrvinnslu klínískra upplýsinga. Í dag fer sú vinna fram með eyðublöðum eða samtölum og eftirvinnsla er handvirk (útreikningar á pappír, innsláttur í tölvu o.fl.). Qodiag hefur hannað lausn sem einfaldar þetta ferli og fagaðilar úr markhópnum hafa staðfest að þjónustan feli í sér verulegan ávinning. Tímasparnaður hvers mánaðar nemur tugum klst. og aðeins tekur örfáa daga að greiða upp mánaðargjald þjónustunnar.

Frumútgáfa (www.qodiag.com) hefur hlotið góðar viðtökur fagaðila og staðfest markaðslega þörf fyrir hugbúnaðarþjónustu af þessu tagi. Opinberar stofnanir hafa undirritað viljayfirlýsingar um að taka hugbúnaðinn í notkun. Á styrktartímabili Tækniþróunarsjóðs var unnið að þróun hugbúnaðarins og að fjármögnun á 35 m. kr. til að geta hafið sölu á Íslandi og markaðssókn erlendis. Fjárfestingafélag var reiðubúið að leggja til ríflega helming þeirrar fjárhæðar sem sóst var eftir ef aðrir fjárfestar legðu til það sem upp á vantaði. Viðræður áttu sér stað við NSA um að fjárfesta í Qodiag en NSA sá sér að lokum ekki fært að fjárfesta í nýjum verkefnum á þessum tímapunkti vegna slæmrar fjárhagstöðu. Þegar styrktartímabili lauk var þróunarvinna í biðstöðu og leitað leiða til að hefja þróun á ný 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica