Lífbrennisteinn - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

29.12.2014

Í verkefninu var unnið að framleiðslu á lífrænum brennisteini og könnunum á hugsanlegum notum fyrir slíka náttúruafurð.

Prokatín ehf. er nýsköpunarfyrirtæki í orkulíftækni sem hefur gert tilraunir með að nýta jarðhitagas frá jarðvarmavirkjunum og binda það í lífmassa og föstum brennisteini til förgunar á brennisteinsvetni (H2S) og kolsýru (CO2). 

Heiti verkefnis: Lífbrennisteinn
Verkefnisstjóri: Arnþór Ævarsson, Prokatín ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 15 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 120871-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Aðferðafræðin er sú að nota H2 og H2S frá jarðvarmaorkuverum sem orkugjafa við ræktun örvera. Slíkar örverur geta bundið CO2 og nýtt það til myndunar á lífmassa og umbreytt brennisteinsvetni í lífrænar brennisteinssameindir. Prokatín hefur í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur rekið tilraunaverksmiðju á Vísindagörðum við Hellisheiðarvirkjun og hefur umfangsmikil rannsókna- og þróunarvinna farið fram í tilraunaverksmiðjunni í þeim tilgangi að búa til próteinmjöl og fastan brennistein úr gastegundunum í jarðhitagasinu sem verksmiðjan fær beint frá orkuverinu. Í verkefninu var unnið að framleiðslu á lífrænum brennisteini og könnunum á hugsanlegum notum fyrir slíka náttúruafurð. Verkefnið sýndi fram á að brennisteinn sem framleiddur er með örverum með þessum hætti býr yfir einstökum eiginleikum sem gera hann hentugan til áburðarnota en gætu líka legið til grundvallar nýjum notkunarsviðum svo sem í lífrænni ræktun og til framleiðslu heilsu- og snyrtiafurða.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica