RheoTruck-meter - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Steyputækni ehf. hefur í samvinnu við Tækniþróunarsjóð, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólann í Reykjavík og fjölda annarra innlendra og erlendra styrktaraðila lokið fjögurra ára þróunarverkefni undir heitinu RheoTruck-meter.
Heiti verkefnis: RheoTruck-meter
Verkefnisstjóri: Ólafur H. Wallevik, Steyputækni og Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 27 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 1006100020
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Verkefni þetta snýst um að hanna og smíða nýtt mælitæki sem getur mælt seigju í steinsteypu um borð í steypubíl. Seigja steypunnar veitir mikilvægar upplýsingar um gæði hennar og með þessa vitneskju að vopni er hægt að taka ákvarðanir um breytingar á samsetningu hennar (uppskriftinni) allt þar til steypan er afhent á byggingarstað. RheoTruck-meter er tæki sem getur bætt rekstur steinsteypufyrirtækja um allan heim með minni sementsnotkun, samtímis og tækið stuðlar þar af leiðandi að minni loftmengun og því má búast við að eftirspurn eftir hinni nýju vöru geti orðið veruleg. Með uppsetningu á RheoTruck-meter í steypubíl þá er hægt að fá vitneskju um of stífa steypu (flökt í framleiðslu) og gefa ráð til að bæta þjálni áður en hún er lögð niður í steypumótin. Í þessu tilfelli mundi mælitækið koma í veg fyrir að of miklu vatni sé bætt við steypuna, en slíkt hefur slæm áhrif á gæði steypunnar þegar hún hefur harðnað með tilheyrandi viðhaldskostnaði fyrir húseigendur. Með því að mæla seigju steypunnar í sjálfum steypubílnum, hvort sem það er gert við steypustöð, á ferð eða þegar bíllinn er kominn á byggingarstað, eykst og batnar gæðaeftirlitið með steypunni til muna sem tryggir betri og einsleitari steypu. Árangurinn er á endanum betri mannvirki.
Í þessu verkefni hefur verið notast við tölvustudda hönnun (e. Computer Aided Design) með líkaninu OpenFOAM. Þróun mælieiningarinnar RheoTruck-meter hefur verið flókið ferli og þá sérstaklega með tillit til þeirra mjög svo flóknu straumfræðilegra ferla sem eiga sér stað inni í tromlu steypubíls. Straumfræðiferlið sem hér um ræðir er svo kallað “open boundary flow of viscoplasic materials”. Af þessum sökum hefur verið nýtt til verksins sérhæft straumfræðilegt hermilíkan með VOF (Volume Of Fluid method) getu til greiningar á gæðum mælieiningarinnar RheoTruck-meter. Með þessari aðferð voru prófaðar þó nokkrar mismunandi útgáfur af RheoTruck-meter. Reikningar hafa verið framkvæmdir á tölvubúnaði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og svo einnig á Háhraðatölvuklasanum NHPC (Nordic High Performance Computing).
Einnig gekk verkefnið út á þróun á steypu með óvenju litlu sementi, nefnd Eco-Crete, og var haldin ráðstefna tengd þessari þróun í Hörpu í ágúst sl. Ráðstefnan bar heitið"ECO-CRETE, International Symposium on Sustainability" og mættu um 280 þátttakendur til leiks á viðburðinn ásamt tveimur öðrum ráðstefnum sem haldnar voru á sama tíma. Niðurstaða úr steypuhlutanum var einnig sýnd hagsmunaaðilum í Abu Dhabi á World Future Energy Summit að viðstöddum Forseta Íslands.
Að lokum var niðurstöðum steypuhlutans gerð ítarleg skil í sjónvarpsþættinum "Ævintýri í Abu Dhabi” sem sýndur var í opinni dagskrá á Stöð 2 þann 8. September 2014.
Afrakstur:
1. Rheological and Strength Robustness of Eco-Crete®Xtreme in terms of Superplasticizer Variations (EcoCrete_SP.pdf)
2. Rheological and Strength Robustness of Eco-Crete®Xtreme in terms of Variations in Water (EcoCrete_W.pdf)
3. The Development of Eco-Crete®Xtreme with Materials Provided by Readymix Abu Dhabi - Phase I, Reduction of Cement by Introducing Silica Fume (EcoCrete_I.pdf)
4. The Development of Eco-Crete®Xtreme with Materials Provided by Readymix Abu Dhabi - Phase II, Reduction of Cement (EcoCrete_II.pdf)
5. The Development of Eco-Crete®Xtreme with Materials Provided by Readymix Abu Dhabi - Phase III, Water Reduction (EcoCrete_III.pdf)
6. Sementslaust Steinlim (SementslaustSteinlim.pdf)
7. Development Towards a Sustainable Self-Consolidating Concrete of Very Low Carbon Footprint - the Eco-Crete X-treme (DEVELOPMENT_OF_ECOCRETE_XTREME.pdf)
8. Kynningarbæklingurinn „“EcoCrete Xtreme“
9. Ráðstefnuritið „Environmental Friendly Concrete, Eco-Crete“
10. Ráðstefnudagskráin fyrir alþjóðlegu ráðstefnuna „Eco-Crete Iceland 2014“ sem haldin var í Hörpu dagana 13. – 15. Ágúst.
11. Sjónvarpsþátturinn „Ævintýrið í Abu Dhabi“ sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 þann 8. Sept 2014 beint á eftir fréttum.