Sparperan - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.1.2015

Sparperan er verkefni sem hefur það að markmiði að valda byltingu í því hvernig auglýsendur nálgast neytendur til að bjóða þeim vörur og þjónustu.

Sparperan er verkefni sem hefur það að markmiði að valda byltingu í því hvernig auglýsendur nálgast neytendur til að bjóða þeim vörur og þjónustu. Í stað þess að neytendur þurfi að láta yfir sig ganga fjöldann allan af auglýsingum um varning sem þeir hafa engan áhuga á, getur auglýsandinn nýtt sér þjónustu Meniga til að bjóða einungis þeim neytendum sem eru líklegir til að hafa áhuga á þeirri vöru sérsniðin endurgreiðslutilboð. Þetta er háþróuð leið til að hjálpa neytendum að nýta neysluvenjur sínar til að fá vörur og þjónustu á hagstæðara verði en áður, og á sama tíma frábær leið fyrir auglýsendur að ná einungis til þeirra sem eru líklegir til að enda sem viðskiptavinir.

Heiti verkefnis: Sparperan
Verkefnisstjóri: Einar Þór Gústafsson, Meniga ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121547-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Meniga gerir allt þetta kleift með því að tengja heimili og auglýsendur á ópersónugreinanlegan hátt í Meniga-hagkerfinu. Auglýsendur bjóða hópi Meniga-notenda sérsniðin endurgreiðslutilboð, Kjördæmi, þar sem greitt er fullt verð í verslun en afsláttur endurgreiddur stuttu síðar. Þar sem Kjördæmið er hannað til að eiga við notandann er hann mun líklegri til að hafa áhuga á því og fyrirtækið sem auglýsir getur sömuleiðis veitt hærri afslátt því sá hópur sem fær Kjördæmið er takmarkaður, ólíkt því sem gerist þegar auglýst er í hefðbundnum fjölmiðli til dæmis. Þessi nýja leið getur því reynst mjög áhrifarík fyrir bæði Meniga-notendur og fyrirtæki.

Meniga leggur sig fram um að setja endurgreiðslutilboðin í samhengi við neyslu hvers notanda og heimilisfjármál hans. Notandinn fær ekki Kjördæmi nema það nýtist honum og hverju Kjördæmi fylgir spá um þann áætlaða sparnað sem notandi getur haft af því að nýta Kjördæmið. Áætlaður sparnaður er krónutala sem byggð er á neyslusögu notandans og gefur því sannari mynd af því hvað áhrif tiltekið tilboð hefur á heimilisfjármálin en einfaldur prósentuafsláttur. Meniga segir notandanum einnig hvers vegna hann fær Kjördæmi. Kjördæmi eru því ekki venjulegur tilboðsvefur heldur vefur sem getur nýst notendum til að draga úr útgjöldum sínum með sýnilegum og skemmtilegum hætti.

Meniga kynnti Kjördæmi til sögunnar 14. nóvember s.l. um leið og snjallsímaappi fyrir iOS og Android var hleypt af stokkunum. Kjördæmin eru einföld í notkun því notendur þurfa einungis að virkja þau Kjördæmi sem þeir fá og síðan versla með kortum tengdum við Meniga. Meniga reiknar síðan endurgreiðsluna í samræmi við hvert Kjördæmi og greiðir inn á reikning notanda 18. hvers mánaðar.

Appinu og Kjördæmum hefur verið gríðarlega vel tekið það sem af er. Fjöldi nýskráninga þrefaldaðist í nóvember, appinu var hlaðið niður rúmlega 4.000 sinnum og var það vinsælasta appið á Íslandi í App Store Apple í nóvember. Fjöldi notenda hefur fengið Kjördæmi og nýtt sér þau. Sá fjöldi á einungis eftir að vaxa eftir því sem fleiri fyrirtæki taka þátt.

Verkefnið hefur einnig fengið umtalsverða athygli utan landsteinanna. Stærstu bankar heims hafa sýnt því áhuga og er verkefni að fara af stað á Spáni með einum stærsta banka Spánar. Verkefnið er samstarfsverkefni (e. joint venture) Meniga og umrædds banka sem gefur Meniga hlutdeild í öllum þóknunum. Meniga mun því njóta beins ávinnings af vaxandi markaði endurgreiðslutilboða, sem byggja á neyslusögu, á heimsvísu í stað þess að vera einungis söluaðili tæknilausnar.

Ljóst er að án stuðnings Tækniþróunarsjóðs hefði þróun kerfisins orðið erfiðari en ella og er alls ekki víst að Meniga stæði í þessum sporum í dag. Meniga vill því þakka Tækniþróunarsjóði kærlega fyrir veittan stuðning og um leið óska þess að framhald verði á myndarlegum stuðningi við tækni- og sprotafyrirtæki á Ísland. Stuðningur af þessu tagi getur skipt sköpum um að vörur með markvert nýnæmi komist á réttan markað á réttum tíma, bæði á Íslandi og sér í lagi á erlendum mörkuðum, þar sem efnahagslegur ávinningur getur verið mjög mikill. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit. 

  1. Kerfi fyrir sérsniðnar auglýsingar og endurgreiðslutilboð sem byggja á neysluvenjum notanda.
  2. Vefviðmót og snjallsíma app fyrir iOS og Android.
  3. Vefviðmót fyrir stjórnendur.
  4. Kynningarefni (meniga.is/kjordaemi)
  5. Sölu- og markaðsefni fyrir innlendan og erlendan markað.
  6. Vöruhús fyrir gagnagreiningar og smíði markhópa.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica