Nýting baktería til að hreinsa járn úr jarðefnum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

18.12.2020

Tilgangur verkefnisins var að bæta hagnýtingarmöguleika íslenskra jarðefna, aðallega með tilliti til leir- og postulínsgerðar, með því að finna hentuga staði til jarðefnatöku og þróun umhverfisvænna vinnsluaðferða til að hreinsa járn og önnur óæskileg efni úr jarðefnunum.

  • 175394_mynd

Verkefnið var unnið í samstarfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og fyrirtækisins Iceland Kaolin, með aðkomu Háskóla Íslands, ÍSOR, Listaháskóla Íslands og Katrínar Ólínu Pétursdóttur vöruhönnuðar. Þróaðar voru aðferðir til að hreinsa jarðefni með seglun og jarðvegsbakteríum í stað þess að nota mengandi leysiefni. Verkefninu var ætlað að sýna fram á að notkun jarðvegsbaktería gæti opnað möguleika á umhverfisvænni framleiðslu á hráefnum fyrir ýmiskonar annan iðnað, svo sem gleriðnað.

Meginniðurstöður verkefnisins eru þær að nothæfan kaolínleir (sem og fleiri leirtegundir) megi finna á mun fleiri stöðum á Íslandi en áður var talið, auk annarra jarðefna sem innihalda feldspat og kvars til keramikvinnslu. Innan verkefnisins hefur verið byggð upp aðstaða og þekking til að vinna ólíkar gerðir jarðefna og hreinsa úr þeim snefilefni á borð við járn, króm, blý, títan, brennistein og önnur efni sem eru hættuleg heilsu, breyta bráðnunareiginleikum efnanna og/eða gefa þeim óæskilegan lit. Fyrir ákveðna fundarstaði hefur reynst mögulegt að hreinsa jarðefnin upp að því marki að þau séu vel nýtileg í margs konar framleiðslu, fyrir utan keramikvinnslu, t.d. snyrtivörur, glervinnslu, pappírsiðnað, o.fl. Innan verkefnisins voru einnig kannaðir hagnýtingarmöguleikar jarðefna með annars konar bindiaðferðum en hefðbundinni brennslu, þ.e. með lífrænum bindiefnum á borð við sellulósa. Einn afrakstur verkefnisins er stofnun nýs fyrirtækis sem hlotið hefur styrk úr Tækniþróunarsjóði til áframhaldandi vinnslu á líparíti og uppskölun á henni. Verkefnið hefur því skilað nýjum tækifærum í atvinnulífi og innlendri verðmætasköpun.

HEITI VERKEFNIS: Nýting baktería til að hreinsa járn úr jarðefnum

Verkefnisstjóri: Kristján Leósson

Styrkþegi: Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Tegund styrks: Hagnýtt rannsóknarverkefni

Fjöldi styrkára: 3

Fjárhæð styrks: 45.000.000 ISL kr. alls

 VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Logo tækniþróunarsjóðs 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica