PEA Aluminum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

25.9.2017

Frumgerð sem byggir á greiningartækni PEA Aluminum hefur verið í prófunum undanfarna mánuði við að efnagreina ál í fljótandi formi í framleiðsluferlinu.

Markmið verkefnisins var að þróa færanlegan greiningarbúnað sem efnagreinir ál í fljótandi formi og gefur niðurstöður í rauntíma, PEA (Portable Element Analyzer). Búnaðinum er ætlað að koma í stað sýnatökuferlis sem á sér stað við framleiðslu á áli í dag, þar sem álsýni eru tekin úr kerum í kerskála, þau flutt og greind á rannsóknastofu. Heilmikil hagræðing felst í því að efnagreina í rauntíma við framleiðsluna, þar sem hægt er að bregðast strax við í stað þess að þurfa að bíða eftir niðurstöðum sýnatökuferlisins.

DTE

Heiti verkefnis: PEA Aluminum
Verkefnisstjóri: Karl Ágúst Matthíasson, DT Equipment ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 3 ár
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 142440-0613

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Afrakstur verkefnisins er greiningartækni sem getur efnagreint snefilefni í fljótandi áli við raunaðstæður og gefið niðurstöður í rauntíma. Enn er þó unnið að greiningarhugbúnaðinum til að fá enn nákvæmari niðurstöður, en þeirri vinnu er aldrei lokið. Frumgerð greiningarbúnaðar DTE hefur verið í prófunum hjá Norðuráli Grundartanga undanfarna mánuði, en frumgerðin er staðbundinn búnaður sem byggir á greiningartækni PEA. DTE hefur sótt um einkaleyfi til Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) fyrir greiningartækninni sem unnið var að í verkefninu („A measurement apparatus and a method for measuring trace elements in a conducting material“, No. EP17158167). Frumgerð greiningarbúnaðarins verður áfram í prófunum og notkun hjá Norðuráli Grundartanga, meðan unnið er að áframhaldandi undirbúningi markaðssetningar. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica