Sjálfvirkt hitaeftirlit rafgreiningarkera - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

4.7.2016

Kerfið, sem hannað og smíðað var, greinir yfir 19 þúsund hitapunkta ásamt því að búa til samsettar hitamyndir af rafgreiningarkerunum. Þessar upplýsingar nota stjórnendur álveranna til þess að ástandsgreina kerin með því markmiði að koma í veg fyrir kerleka.

Álframleiðendur hafa á undanförnum árum einbeitt sér að því að minnka mengun frá starfseminni og bæta öryggi starfsmanna. Aukin umhverfisvitund samfélaga gerir meiri kröfur til álframleiðenda um að þeir losi sem allra minnst af skaðlegum efnum í nærumhverfi sínu og nýti allt hráefni sem best. Einnig gera starfsmenn aukna kröfu um öryggi og því hafa nútíma álver gert öryggi starfsmanna sinna að einkunnarorðum í rekstri sínum.

Heiti verkefnis: Sjálfvirkt hitaeftirlit rafgreiningarkera
Verkefnisstjóri: Símon Elvar Vilhjálmsson, Kalor Metrics ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2013-2014
Fjárhæð styrks: 14 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 132113-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Ein af alvarlegustu öryggisógnum í nútíma álframleiðslu eru ófyrirséðir kerlekar (en: tapouts). Við kerleka kemur gat á rafgreiningakerið og ál og raflausn eiga greiðan aðgang útúr kerinu. Þessi efni eru gríðarlega heit eða um 960°C og eru því í fljótandi formi. Við kerleka skapast gríðarleg hætta fyrir alla nærstadda bæði frá bráðinni állausn og mögulegum gufusprengingum sem geta orðið ef vatn kemst í snertingu við fljótandi állausnina.

Kalor Metrics hefur þróað sjálfvirkt hitamyndgreiningarkerfi sem vara við óæskilegri hegðun rafgreiningarkera. Kerfið greinir yfir 19 þúsund hitapunkta ásamt því að búa til samsettar hitamyndir af rafgreiningarkerunum. Þessar upplýsingar nota stjórnendur álveranna til þess að ástandsgreina kerin með því markmiði að koma í veg fyrir kerleka. Nú þegar hefur álver fjárfest í lausninni og markaðssetning erlendis er hafin.

Með verkefninu safnaðist mikil þekking á sviði sjálfvirkrar myndgreiningar fyrir hita- og litamyndir og í dag býður Kalor Metrics upp á heildstæða þjónustu á þessu sviði (sjá kalormetrics.com).

Afrakstur

  • Hannað og smíðað var sjálfvirkt hitamyndgreiningarkerfi sem aðstoðar stjórnendur álvera við að koma í veg fyrir kerleka. Kerfið er margþætt og samanstendur það af notendaviðmótum við myndavélar og mæliniðurstöður, tengiforrit við gagnagrunna og myndgreiningarforrit. Búnaðurinn er tilbúinn til sölu og markaðssetning hafin erlendis.
  • Þekking á sviði sjálfvirkrar hita- og litmyndgreiningar sem gerir Kalor Metrics kleift að bjóða upp á heildstæða þjónustu á þessu sviði 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica