Sjálfvirkur skurður beingarðs úr hvítfiskflökum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

9.3.2016

Með FleXicut-tækninni er hægt að finna beingarðinn í hvítfiskflökum og fjarlægja hann af mikilli nákvæmni.

Aukin gæði og nýting með tilkomu Flexicut

Meginafurð verkefnisins ”Sjálfvirkur skurður beingarðs úr hvítfiskflökum” sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði, AVS, og Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, er  FleXicut. FleXicut sameinar tvö mikilvæg skref í vinnsluferli hvítfisks, að finna beingarðinn og fjarlægja hann af mikilli nákvæmni. FleXicut notar háþróaða röntgentækni til að greina og staðsetja beingarð í hvítfiskflökum, sker síðan beingarðinn burt með vatnsskurði af mikilli nákvæmni og hlutar flakið niður.

Heiti verkefnis: Sjálfvirkur skurður beingarðs úr hvítfiskflökum
Verkefnisstjóri: Kristján Hallvarðsson, Marel ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2014
Marel-lokask Fjárhæð styrks: 20,3 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 120883-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Vatnsskurðurinn hefur það umfram hefðbundinn hnífsskurð, að hann býður upp á mun meiri sveigjanleika og nákvæmni, enda býr hann yfir þeim eiginleika að geta látið skurðinn fylgja legu beingarðsins með mismunandi halla. Með tilkomu þessarar tækni mun ákvarðanataka um beingarðsskurð og niðurhlutun flaksins færast frá starfsfólki á snyrtilínum yfir í FleXicut. Það leiðir til betri nýtingar og meðhöndlunar hráefnis.

FleXicut er mikilvægt skref að nýrri kynslóð vinnslulína fyrir hvítfisk en með tilkomu lausnarinnar hefur mannfrekt ferli við beingarðsskurð verið vélvætt sem umbyltir hvítfiskvinnslu. Ekki aðeins mun tilkoma FleXicut minnka þörf á sérhæfðu vinnuafli heldur einnig auka gæði og nýtingu í vinnsluferlinu sem mun skila mikilvægri aukningu í verðmætum fyrir hvítfiskiðnaðinn. FleXicut hefur þegar verið sett upp í þremur fiskvinnslum á Íslandi og einni í Danmörku.

Þátttakendur í verkefninu voru Marel, Matís, Háskólinn í Reykjavík, SINTEF, Eskja, Norway Seafoods og Faroe Origin. Að auki hefur verið unnið að þróuninni í samstarfi við Vísi hf. og Nýfisk. Nemendur við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, unnu lokaverkefni sín í tengslum við þróun á tækninni. 

Afrakstur verkefnisins

Meginafrakstur verkefnisins er FleXicut, tækni sem vélvæðir fjarlægingu beingarðs úr hvítfiski.

Sjá nánar hér .

Þetta vefsvæði byggir á Eplica