Styrkur til markaðssetningar á Vatnsþjálfa fyrir sporthesta í UAE og USA - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjórans

14.3.2017

Með því að taka þátt í vörusýningu í Dubai vorið 2016 komst fyrirtækið Formax Paralamp í samband við hestaheiminn í Miðausturlöndum milliliðalaust. Lögð voru drög að stofnun söluskrifstofu og sölu- og þjónustuaðili ráðinn sem er á svæðinu.

Markaðsstyrkur til markaðssóknar í UAE - Sameinuðu arabísku furstadæmunum - og USA - Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Okkur hjá Aqua Icelander (Formax Paralamp ehf) er það ljóst að með þessum styrk komumst við mörg skref áfram varðandi dreifingu á hestavörunum okkar og náðum fótfestu á gífurlega sterkum  markaði eins og í Bandaríkjunum.

Sameinuðu arabísku furstadæmin:
Með því að taka þátt í vörusýningu í Dubai vorið 2016 komumst við í samband við hestaheiminn í Miðausturlöndum milliliðalaust sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar vörur og markaðssetningu en fyrir höfðum við selt 5 vatnsþjálfunar-kerfi til Dubai í gegnum heildsala á svæðinu. Lögð voru drög að stofnun söluskrifstofu og sölu- og þjónustuaðili ráðinn sem er á svæðinu. Það er Íslendingur sem búið hefur og starfað í Dubai í 6 ár og þekkir vel viðskiptahætti ásamt því að vera tæknimenntaður.

Í þessum heimshluta er hestamennska stunduð af mikilli ástríðu og gríðarlegar fjárhæðir í veðhlaupum og tengdu hestasporti . Mikið er ræktað af  verðmætum hestum sem eru notaðir bæði til keppni og ánægju.  Hestamennskan á þessu svæði teygir sig um allan heim, sem dæmi fengum við sölu í Bretlandi frá aðilum í Dubai en þeir eru líka með starfsemi  í stórum stíl í UK.

Nokkur stór verkefni eru í gangi í UAE.  Hestamiðstöðvar, keppnisaðstaða, einkaklúbbar og einkaeignir. Verkefnisstjórar og hönnuðir þessara verkefna hafa allir leitað tilboða hjá okkur og verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður.

Heiti verkefnis: Styrkur til markaðssetningar á Vatnsþjálfa fyrir sporthesta UAE og USA
Verkefnisstjóri: Bjarni Sigurðsson, Formax Paralamp ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Fjöldi styrkára: 1
Styrkfjárhæð: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153488-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Bandaríki Norður-Ameríku:
Í Bandaríkjunum  byrjuðum við á nýjum markaði en erum nú þegar komin með reynslumikinn umboðsaðila sem búinn er að selja 3 Vatnsþjálfa frá okkur (svokallaða heildarlausn); Vatnsþjálfi ásamt fullkomnum kæli og vatnshreinsibúnaði.
Staðsetning viðskiptavina með okkar vörur í Bandaríkjunum:

  • California: Trifecta, endurhæfinga og þjálfunarstöð fyrir veðhlaupahesta.
  • Texas: Equine Fitness,  Þjálfunarstöð fyrir western-keppnishesta.
  • Washington State University Equine Hospital : háskólasjúkrahús (dýraspítali)

Þessar sölur og staðsetningar eru gríðarlega mikilvægar fyrir áframhaldið og erum við þegar að skipuleggja með okkar umboðsaðila kynningar og heimsóknir til að fylgja þessu eftir. Okkar áætlanir gera ráð fyrir mikilli sölu á þessum markaði á næstu árum og án efa verða Bandaríkin okkar stærsti  markaður. ECB Equine Spa sem er okkar söluaðili í USA  hefur mikla reynslu á þessum markaði, hefur selt hestavörur í um 15 ár og hefur yfir að ráða gríðarlega góðu tengslaneti. Í gegnum ECB USA handsöluðum við síðan umboðssamning  við ECB Cold Spa UK. Sem tekur yfir sölu og þjónustu á vörum okkar  í Bretlandi.

Eftir ráðleggingar umboðsaðila okkar í USA varð sú breyting á framvindu að í stað þátttöku í sýningu í LA.  fórum við í markvissa kynningu á nokkrum endurhæfingar- og þjálfunarstöðvum ásamt dýraháskólum til að kynna okkar vöru og uppskárum við í kjölfarið sölur á tveimur þessara stöðva.  Jafnframt var staðfest þátttaka í einni sterkustu alþjóðlegu sýningu,  Equitana  með yfir 250.000 gestum frá öllum heimshornum.

Afrakstur

  • Eigin söluskrifstofa í UAE Dubai.
  • Aðgangur að markaðnum í UAE milliliðalaust, gott tengslanet að myndast við markaðinn.
  • Umboðsaðili  fundinn fyrir okkar vörur í Bandaríkjunum.  Farið markvisst í kynningarferðir 2016, í kjölfarið  seljast 3 Vatnsþjálfar til Bandaríkjanna.
  • Markaðssetning komin í hendur aðila í USA sem hefur gott tengslanet og mikla reynslu á þessum markaði.
  • Samið við umboðsaðila í Bretlandi fyrir okkar vörur og seljast í kjölfarið 2 kerfi á síðustu mánuðum 2016.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica