Tilboðvefur í skýinu - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

9.3.2018

Í nokkur ár hefur Meniga starfrækt Meniga endurgreiðslutilboð þar sem beitt er þróuðum algrímum til að finna sérsniðin tilboð frá fyrirtækjum fyrir viðskiptavini Meniga. 

Markmið fjártæknifyrirtækisins Meniga er að hjálpa fólki að skilja heimilisfjármálin betur og nýta ráðstöfunarfé sitt á hagkvæmari hátt. Til þess starfrækir Meniga fjármálavefinn meniga.is og einnig Meniga appið á Íslandi. Þar gefst einstaklingum færi á að skoða neysluvenjur sínar auk þess að setja sér fjárhagsleg markmið. Í dag er þjónusta Meniga einnig aðgengileg hjá um 50 milljónum viðskiptavina 65 banka í 20 löndum. 

Frá því í nóvember 2014 hefur Meniga starfrækt Meniga endurgreiðslutilboð (áður Kjördæmi) þar sem beitt er þróuðum algrímum til að finna sérsniðin tilboð frá fyrirtækjum fyrir viðskiptavini Meniga.  Markmiðið er að viðskiptavinir fái einungis tilboð sem þeir hafa áhuga á og er það gert með því að greina neyslusögu þeirra.

Heiti verkefnis: Tilboðvefur í skýinu (Cloud based merchant platform)
Verkefnisstjóri: Helgi Benediktsson, Meniga ehf.
Tegund verkefnis: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 3 ár á árunum 2014-2017
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 142676

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið verkefnisins Tilboðvefur í skýinu (Cloud based merchant platform) sem styrkt hefur verið af Tækniþróunarsjóði undanfarin 3 ár, er að útvíkka kerfið þannig að bankar og aðrar fjármálastofnanir geti boðið sínum viðskiptavinum upp á sérsniðin tilboð frá fyrirtækjum án þess að safna og halda utan um þau sjálfir. Þannig getur tilboðsvefurinn þjónustað marga banka og fyrirtæki þurfa ekki að semja sérstaklega við hvern banka til að bjóða viðskiptavinum þeirra sérvalin tilboð. 

Í júní 2017 hleypti Íslandsbanki af stokkunum Fríðu, sem er vildarkerfi sem nýtir sér tilboðsvefinn í skýinu. Vildarkerfið Fríða og meniga.is nýta sér því sömu tilboðsgáttina sem nær til hátt í 100 þúsund Íslendinga.

Á sama tíma fór vefgátt Meniga fyrir endurgreiðslutilboð í loftið. Í vefgáttinni er hægt að setja inn tilboð sem er síðan dreift á bæði viðskiptavini meniga.is sem og viðskiptavini Fríðu eftir því sem við á. Vefgáttin vinnur einungis með ópersónugreinanleg gögn.

Öll markhópagreining byggð á neyslu einstaklinga fer að öllu leyti fram á meniga.is eða hjá Íslandsbanka (fyrir Fríðu) eftir því hjá hvoru fyrirtækinu viðskiptavinur er skráður.

Tilboð sem viðskiptavinum berast eru síðan sýnd í viðmóti meniga.is (app og vefur) eða í appi Íslandsbanka.

Meniga er mjög spennt fyrir áframhaldandi þróun þessarar vöru og hefur áhugi banka utanlands verið mjög mikill. Áhuginn sem Meniga finnur fyrir gefur þó fyrirheit um að af því verði á árinu 2018 og hefur stuðningur Tækniþróunarsjóð á styrktímanum verið afar mikilsverður til að koma kerfinu á þann stað að svo megi verða.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica