Ævintýralandið – Alvöru þykjustuleikur - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

28.10.2022

Ævintýralandið – Alvöru þykjustuleikur hlaut sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs í vorúthlutun 2020 og vinnan litaðist af heimsfaraldri Covid. Þrátt fyrir að þjóðfélagið hafi lamast að miklu leyti, þá komst teymið yfir þá áskorun og hefur á tveimur árum náð öllum markmiðum verkefnisins samkvæmt áætlun.

Hugmyndin spratt upp úr vöntun á hágæða afþreyingarleik fyrir yngstu kynslóðina. Leik sem gefur foreldrum kost á vandaðri afþreyingu á móðurmálinu sem spilast með appi í snjalltæki, örvar málþroska, orðaforða, frumkvæði og útsjónarsemi og er sérhannaður fyrir hugarheim barna. Eftir tveggja ára þróun er leikurinn orðinn að spilanlegri frumgerð sem börn njóta að leika sér í.

Vandamálið sem unnið er að því að leysa sprettur af þeirri einföldu ástæðu að börn á leikskólaaldri neyta skemmtiefnis á netinu eins og annað fólk. Þau verða fyrir áhrifum af því og það þarf að vera uppbyggilegt og jákvætt. Íslensk tunga og menning á undir högg að sækja á netinu. Afþreying á ensku er þar allsráðandi og er hönnuð til að vera bæði ánetjandi og vara lengi í senn. Streymisveitur á borð við t.d. YouTube innihalda mikið af slíku efni og auglýsingum sem miðast að börnum. Hin óætluðu áhrif koma fram í hröðum áhrifum enskunnar á málþroska og málvitund barnanna. Málvenjur sem falla illa að móðurmálinu ná þar að festa sig í sessi og grafa undan setningamyndun, orðaforða og skilningi á íslensku. Skortur á gagnvirkni við línulegt áhorf veitir börnum enga útrás og framkallar stress og ólund.

Hugmyndin er að í Ævintýralandinu læri börnin í gegnum leik. Barnið sjálft er söguhetjan og býr í vinalegu þorpi sem kallast Heimabær. Söguhetjan fer á milli staða og hjálpar fólki og dýrum úr kröggum eða leysa fyrir þau verkefni. Þau geta fólgist í að leysa þrautir, t.d. finna hluti, flokka þá saman eða nota einn hlut á annan og búið til nýjan. Mörg smá verkefni geta orðið að einu stóru og reynt á skilning, athygli, frumkvæði og ímyndunarafl. Verkefnið felast í að hjálpa dýrum og mönnum í vanda. Umbun bíður barnsins fyrir vel unnin störf og með tímanum eignast söguhetjan félaga, hluti, verkfæri og undragripi og fleira.

Ævintýralandsappið er heimavöllur fjölskyldunnar og býður upp á að barnið geti dundað sér sjálft í endalausum ævintýrum á meðan foreldrarnir geta sinnt öðru með góðri samvisku. Leiknum fylgir úrval ævintýra á fjölbreyttum landsvæðum; s.s. í vetrarríki, sveitasælu, frumskógi, eyðimörk og fjallendi. Úr verður djúp skemmtun og gefandi afþreying sem nýtir nýjustu tækni og frumlega leikjahönnun til góðs. Víðar en á Íslandi hafa menn áhyggjur af áhrifum ensku á sitt móðurmál. Leikurinn er hannaður þannig að notendaviðmót hans er að mestu óháð tungumáli og því einfalt að staðfæra hann fyrir erlenda markaði með því að skipta út talmálinu.

Verkefnið þakkar Tækniþróunarsjóði fyrir stuðninginn sem hefur komið verkefninu og fyrirtækinu á góða ferð til að klára leikinn. Ævintýralandið er væntanlegt á markað í árslok 2024 eða fyrri part árs 2025. Einnig þakkar verkefnið fyrrum starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Tæknigarða fyrir samvinnu og hjálp í frumkvöðlastarfi. Einnig er Nýsköpunarsjóði námsmanna þakkaður stuðningurinn á nýliðnu sumri.

Verkefnið heldur nú áfram í nýjan fasa. Unnið er að eiginfjármögnun, flestir sem unnið hafa við leikinn hafa einnig gerst hluthafar og sótt verður um Vaxtarstyrk Tækniþróunarsjóðs á vetrinum 2022-23.

Innkoma Ævintýralandsins á íslenskan markað mun stuðla að því að kunnátta á móðurmáli þjóðarinnar víki ekki fyrir ensku. Í framtíðinni munu aðrar þjóðir njóta þess sama er leikurinn verður gefinn út á hverju tungumálinu á fætur öðru og með sögum sem gera menningu allra hátt undir höfði.Logo tækniþróunarsjóðs

HEITI VERKEFNIS: Ævintýralandið– Alvöru þykjustuleikur

Verkefnisstjóri: María Huld Pétursdóttir

Styrkþegi: Halló krakkar ehf.

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 1

Fjárhæð styrks: 20.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI









Þetta vefsvæði byggir á Eplica